Aðalfundur 20.2.2014

Fundurinn var settur kl. 20.00 af Magnúsi Ólafssyni formanni félagsins. Hann bauð fundarmenn velkomna og sagðist ánægður að sjá hve margir væru mættir. Hann gerði tillögu um Pétur Maack sem fundarstjóra og var það samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri stakk upp á að Þórður Guðmundsson yrði ritari fundarins og var það samþykkt samhljóða. Fundarstjóri líkti mætingu við sveitarstjórnarfund, bara allir mættir sagði hann og var ánægður með það. Til fundarins hafði verið löglega boðað með bréfi, en það hafði verið póstlagt þann 6.2.2014. Hann spurði fundarmenn hvort þeir vildu að fundargerð síðasta aðalfundar yrði lesin, en hún væri í heild sinni á heimasíðu félagsins, „sumaruthlid.is“ og þar væri hægt að lesa hana, en fundurinn samþykktu að hún yrði ekki lesin upp, það væri bara til að tefja fundinn. Fundarstjóri lét vita af því að fundurinn væri hljóðritaður eins og aðrir fundir hefðu verið. Hann kynnti síðan dagskrá fundarins, en henni var varpað á tjald fyrir fundarmenn.

Fyrsti liður á dagskrá var skýrsla stjórnar sem formaður flutti. Hann fór yfir þau verkefni sem félagið hefði staðið að, þar skal fyrst nefna niðursetningu skilta, bæði við einstakar götur, svo og tvö stór yfirlitsskilti, annað á bílastæði við Réttina og hitt í brekkunni á leið upp í nýja hverfið. Þetta gerði vonandi fólki auðveldara að rata um það völundarhús sem skógurinn er.

Stóra málið á árinu var uppsetning  öryggishliða eins og síðasti aðalfundur samþykkti. Hliðin eru öll komin í gang og ljós voru sett á staurana við hliðin í dag sagði formaður. Það náðust að lokum samningar við bændur sem vonandi allir geta sætt sig við. Það voru smá byrjunarörðugleikar, aðallega vegna þess að fólk sendi ekki inn símanúmer til að forrita inn í kerfið. Þetta er nú leyst að mestum hluta og vonandi láta þeir örfáu sem hafa ekki ennþá skráð sig, okkur vita um símanúmer sín sem fyrst. Sátt náðist einnig við stéttarfélögin sem eiga bústaði á svæðinu, svo að við höldum að þetta hafi verið leyst farsællega sagði Magnús.

Stjórninni fannst nauðsynlegt að láta gera ný lög fyrir félagið og samræma þau við lög frá alþingi frá árinu 2008, sem tóku gildi árið 2010. Það kom glögglega í ljós á síðasta aðalfundi hvað núverandi lög eru úr takti við tímann sagði Magnús. Fenginn var lögfræðingur, Daði Bjarnason hæstaréttarlögmaður  til að semja ný lög sem verða rædd síðar á fundinum.
Við erum ennþá að glíma við vatnsmálin, það er alveg ljóst að megin vandamálið er hve leiðslur eru grannar, þannig að á álagstímum þá ná þær ekki að flytja það vatn sem þarf í efstu hverfin. Það átti að reyna að nota vatnstankinn sem er við Skarðaveg til að leysa toppa sem koma í neysluvatnsnotkun, en þegar til kom var hann einfaldlega talinn of lítill og mundi því ekki þjóna neinum tilgangi að lappa upp á hann. Þetta verður því áfram eitt af aðalmálum stjórnar að reyna að fá úrlausn á þessum vanda, en Orkuveitan á að spara segja stjórnendur og því lítið hægt að gera. En við munum reyna áfram sagði Magnús.

Formaður hefur farið á nokkra fundi með oddvitum Bláskógarbyggðar, þar sem m.a. hafa verið rædd há fasteignagjöld, væntanlega með þeim hæstu á landinu. Það hafa verið rædd sorphirðumál , en Bláskógarbyggð hunsar úrskurð ráðuneytis varðandi þau mál. Nú sér Björn bóndi til þess að við höfum gáma á svæðinu, en ef hann mundi hætta því yrðum við í slæmum málum hvað þetta varðar.

Við erum búin að vinna mikið í því að uppfæra allar skrár hjá okkur. Hildigunnur og Edda hafa lagt mikla vinnu í það og nú er íbúaskrá orðin býsna góð, þannig að við erum með síma og netföng hjá flestum. Formaður ítrekaði við fundarmenn að nýta sér síðu félagsins „sumaruthlid.is“, en þar væru ýmsar gagnlegar upplýsingar.

Einar Hólm kvaddi sér hljóðs vegna skýrslu stjórnar og gerð að umtalsefni að hægt væri að fara eftir Kóngsveginum og inn í gamla hverfið. Magnús svaraði því til að þessu ætti að loka, en smávægilegir samskiptaörðugleikar við bóndann hefðu tafið það, en það yrði gert.

Reikningar félagsins voru næstir á dagskrá. Formaður fór yfir þá og einnig lágu þeir frammi fyrir þá sem vildu eintak. Davíð Einarsson endurskoðandi sá um að setja upp reikninginn í samráði við Eddu Dungal gjaldkera félagsins. Helstu kennitölur voru þessar. Rekstratekjur 8.676.000, rekstragjöld 8.644.157 og rekstrarafgangur ársins var 133.541. Eignir samtals voru 4.783.345, en skammtímaskuldir námu 3.924.731. Nokkrar spurningar voru bornar fram vegna reikninga og var t.d. spurt um rekstrarkostnað hliðanna. Formaður taldi að það gætu verið á milli áttatíu og níutíu þúsund í þjónustugjöld til Securitas á ári, plús rafmagns og símakostnaður.

Umræða um skýrslu stjórnar og reikninga voru næstir á dagskrá. Þar var m.a. spurt út í fjarstýringar. Formaður upplýsti að þær væru hugsaðar fyrir félagsbústaði, því gagnabankinn tæki aðeins við 1000 númerum, sumarhús eru 180 og hverjum eigenda úthlutað allt að 5 númerum. Spurt var um sumaropnun hliða, svaraði formaður því að samþykkt hefði verið að hafa þau opin júni, júlí og ágúst næsta sumar og sjá svo reynsluna af því. Spurt var um hvort hægt væri að setja íbúaskrána inn á heimasíðuna, þó þannig að hún væri lokuð óviðkomandi. Hildigunnur sagði að þetta væri ekkert mál tæknilega séð, en hvort persónuvernd myndi leyfa slíkt vissi hún ekki um, en sagði að stjórnin myndi athuga það.

Fundarstjóri þakkaði formanni fyrir skýrslu stjórnar og útskýringar á henni og reikningum félagsins. Hvoru tveggja var nú borið undir atkvæði og bæði skýrsla stjórnar og reikningar samþykkt samhljóða.

Næsti liður var kosning stjórnar. Borist hafði tillaga frá stjórn um menn í kjöri. Magnús Ólafsson formaður var í kjörinn s.l. ár til tveggja ára og situr því áfram, sama gildir um Þórð Guðmundsson. Edda Dungal er fráfarandi stjórnarmaður og gefur ekki kost á sér núna en í stað hennar er stungið upp á Davíð Einarssyni löggiltum endurskoðanda sem gjaldkera til tveggja ára, hann var skoðunarmaður reikninga á liðnu starfsári. Jóhann Ríkharðsson var kosinn í varstjórn til tveggja ára á síðasta aðalfundi og er því ekki í kjöri núna, Hildigunnur Halldórsdóttir var kosin til eins árs í varastjórn þá, hún gefur aftur kost  á sér í varastjórn til næstu tveggja ára. Samþykkt samhljóða

Stungið er upp á tveimur skoðunarmönnum. Það eru Edda Erlendsdóttir til tveggja ára og Sigrún Benediktsdóttir til eins árs. Samþykkt samhljóða.
Næst var borin upp tillaga frá stjórn um árgjöld. Werner spurði hvort ekki væri eðlilegt að setja fram framkvæmdaáætlun. Formaður svaraði því til að það lægju engin sérstök verkefni fyrir og því ekki hægt um vik að gera slíka áætlun, hinsvegar ætlaði hann að ræða um það undir liðnum önnur mál síðar á fundinum. Spurt var hvort árgjaldið væri fyrir eitt hús eða eina lóð. Nú væru sumir með 2 lóðir en bara eitt hús. Formaður sagði að gjaldið væri miðað við hús en ekki lóðir. Nú var borin upp tillaga um 12000 kr. árgjald, samþykkt samhljóða.

Kaffihlé!!!!!!!!!!!!!!!!!

Ný lög. Það lá fyrir fundinum að samþykkja ný lög fyrir félagið, ekki að laga þau gömlu, heldur alfarið ný lög byggð á þeim lögum sem voru samþykkt af Alþingi 2008 og komu til framkvæmda 2010. Nýju lögin eru nær nútímanum og því myndu þau koma í stað þeirra gömlu. Nokkrar umræður urðu um þetta og niðurstaðan var sú að gömlu lögin falla úr gildi, að ný lög munu gilda fram að næsta aðalfundi, félagsmenn munu því hafa nægan tíma til að koma með þær breytingar sem þeir vilja, en breytingartillögur verða að berast í síðasta lagi fimm dögum fyrir aðalfund. Þetta var samþykkt samhljóða. Áður hafði verið samþykkt breytingartillaga frá Einari Hólm  við 7. grein þar sem segir. Fundargerðabók skal haldin um það sem gerist á stjórnarfundum og einnig um það sem gerist á félagsfundum. Á félagsfundi skal fundargerð síðasta félagsfundar lesin upp. Þessar tvær málsgreinar komi í stað fyrstu málsgreinar 7. Greinar í tillögu stjórnar.

Síðasti liður fundarins var önnur mál. Þórhildur ræddi um skilti og vegamerkingar sem hún taldi til mikilla bóta. Þó væri þetta ennþá svolítið flókið, þ.e.a.s. vegakerfið og spurði hvort ekki væri hægt að einfalda það.Svar stjórnar við því var að vegakerfið í Úthlíð væri samþykkt af skipulagsyfirvöldum og væntanlega flókið að breyta því, en stjórnin kannast við þetta og ætlar að skoða málið.

Werner Rasmussen kvaddi sér hljóðs og vildi þakka stjórn vel unnin störf og tók salurinn undir það með lófataki.

Einn fundarmanna kom með tillögu um að  það yrði tilkynnt í byrjun fundar hve margir eigendur væru mættir,þ.e.a.s . prósentulega séð,  til að geta áttað sig á hvort fundur sé lögmætur eða ekki. Tillögu vísað til stjórnar.

Þórhildur kom með athugasemd við aukna útilýsingu í bústöðum sem skemma fyrir þeim sem vilja hafa myrkur þegar stjörnubjart er. Þetta tóku fleiri undir.

Guðmundur Leifsson spurði um vegakerfið, hvort  félagið hefði rætt við landeiganda að taka það yfir. Formaður svaraði því til að þetta væri eitt af þeim málum sem félagið hefði áhuga fyrir að skoða. Það eru flestir óánægðir með það hvernig það er í dag, allflestir vilja rauðamölina í burtu o.s.frv. Þetta eru um 14 km af vegum svo þetta eru miklar upphæðir. Vilja félagsmenn að þetta verði skoðað spurði formaður?  Til þess verðum við að hafa tekjulind, hún fengist með því að taka þetta yfir, en bóndinn hefur verið að rukka fyrir vegagjald og girðingargjald. Formaður setti fram þá hugmynd að stjórnin myndi kanna þessi mál, þá að ræða við landeigendur og kostnaðarhliðina á málinu, og leggja fram niðurstöður á næsta aðalfundi. Málið var borið undir fundinn og samþykkt samhljóða.

Aðeins var minnst á brunavarnir, formaður sagði að beðið væri niðurstöðu sveitafélagsins.

Klipping trjágróðurs meðfram vegum, mjög þarft að gera það sem víðast.

Fundarstjóri minntist enn og aftur á heimasíðuna og benti á að þar væri dálkur sem héti spjall, þar er hægt að bera á torg hin ýmsu mál, en enginn, ekki einn, hefur notfært sér þetta ennþá. Hvatti hann fólk til að gera það.

Að lokum var fundi slitið kl. 22.10.     Þórður Guðmundsson ritari.

Til baka