Aðalfundur 19.2 2015

Fundurinn var haldinn á Grand hóteli og var settur af formanni félagsins Magnúsi Ólafssyni kl. 20.00. Stungið var upp á Pétri Maack sem fundarstjóra og var það samþykkt samhljóða. Stungið var upp á að ritari fundarins yrði Þórður Guðmundsson, samþykkt samhljóða. Fundarstjóri gat þess að fundurinn yrði hljóðritaður að venju. Fundarstjóri leitaði álits fundarmanna á því hvort lesa ætti upp fundargerð síðasta aðalfundar, en hún hefur verið birt á heimasíðu félagsins þar sem félagsmenn hafa getið lesið hana. Fundarmenn töldu ekki ástæðu til þess.

Fundarstjóri gat þess að til fundarins hefði verið löglega boðað með bréfi sem hefði verið póstlagt 5.2.2015 og í þeim pósti hefði einnig verið tillögur stjórnar um breytingar á þeim lögum sem hefðu verið samþykkt á síðasta aðalfundi.

Samkvæmt dagskrá sem birt var í fundarboði þá er fyrsti liður á dagskrá lagabreytingar, en á aðalfundi 2014 voru samþykkt ný lög fyrir félagið, og fékk stjórnin eitt ár til að móta þau lög betur og leggur hér með sínar tillögur  fram til samþykktar sagði fundarstjóri. Að þessu sögðu varpaði fundarstjóri lögunum ásamt breytingum upp á tjald, fór síðan yfir hverja grein laganna, bar þær síðan upp til samþykktar hverja fyrir sig og voru þær allar samþykktar. Nokkrar umræður urðu um breytingarnar og voru fundarmenn hvattir til að skila inn breytingartillögum 5 dögum fyrir næsta aðalfund, telji þeir þörf á. ( Lögunum í heild sinni, með þeim breytingum sem samþykktar voru á aðalfundinum hefur þegar verið komið inn á heimsíðu félagsins)

Skýrslu stjórnar flutti Magnús Ólafsson formaður. Aðalmál félagsins á árinu var að klára uppsetningu hliðanna og frágang við þau, eins og til að mynda lýsingu o.s.frv.. Það komu upp ýmiss vandamál sem eru nú flest öll leyst. T.d. voru erfiðleikar vegna raka og vatns sem komst inn í kassana, þetta var leyst með hiturum. Eitt er ennþá óleyst , en það eru skynjararnir við hliðin, þeir eru einfaldlega of lágir, þannig að það þarf að hækka þá næsta sumar. Stjórnin lét styrkja slárnar sem voru of veikburða og lét lagfæra eitt og annað sem upp kom.Nokkrum sinnum voru hreinlega framin skemmdarverk á hliðunum, þannig að gengið var í það að setja myndavélar við hvert hlið.Síðan í nóvember, þrátt fyrir rysjótta tíð hefur allt verið til friðs. Í framhaldinu munum við svo gefa félagsmönnum kost á að sjá frá einni vél í gegn um netið. Þá geta menn áttað sig á færð og veðri. Stjórnin fór svo út í lagfæringar á lögum, sem hér hafa nú verið kynnt. Nokkrir fundi hafa verið haldnir með Bláskógarbyggð. Þar var  t.d. rætt við um sorplosun o.fl. Það verður að segjast eins og er að  ekki hefur  það borið neinn árangur sem erfiði. Þeir rukka  há fasteignagjöld, en lítið sem ekkert kemur í staðinn. Ef ekki væri fyrir tilstilli Björns bónda þyrftu eigendur  að fara með sorp á Laugarvatn eða niður í Reykholt, en hann hefur greitt fyrir gámana sem eru í Úthlíð. Björn hefur gefið það í skyn að hann muni að öllum líkindum ekki gera það mikið lengur, og þá þarf stjórnin  að taka það að sér, eða að eigendur fari með sorpið á þá staði sem nefndi voru áðan. Bláskógarbyggð hefur um það bil 250 milljónir í fasteignagjöld af sumarhúsum, en gera lítið sem ekkert á móti, þrátt fyrir að vera búnir að fá á sig stjórnsýsluákæru. Nú hefur stjórnin ákveðið að vera ekki í slagtogi með öðrum sumarhúsafélögum í sveitarfélaginu í viðræðum við Bláskógarbyggð, heldur gera þetta á eigin forsendum og sjá hvernig til tekst.

Stjórnin  hefur verið að gera skrá yfir bústaði og eigendur betri og betri, Hildigunnur hefur séð um það, og nú ætlar hún að fara í endurbætur á vefnum, (sumaruthlid.is) og  gera hann betri og fullkomnari. Þar mun væntanlega koma inn myndavél frá einu hliðanna sem þið getið séð. Gerð var skoðanakönnum sem félagsmenn  hafið allir  fengið aðgang að  og mun Hildigunnur kynna niðurstöður hennar hér á eftir. Ákveðið hefur verið að hafa hreinsunardag seinni hluta maí mánaðar og hafa Magnús Kristinsson og Finnbogi Guðmundsson tekið að sér að stýra því sem þar fer fram, t.d. klipping á gróðri meðfram vegum, týna upp rusl og fleira. Nú svo verður kannske grillað á eftir, en þetta verður nú skipulagt af þeim, kunnum við þeim bestu þakkir fyrir að taka þetta að sér.
Eftir skýrslu stjórnar tók gjaldkeri félagsins, Davíð Einarsson við og fór yfir reikninga félagsins.Hann byrjaði á því að upplýsa að 25% af tekjum Bláskógabyggðar væru komnar frá sumarhúsaeigendum en ekkert atkvæði fylgdi með í kaupunum, og því ekki mikið sem þessir aðilar gætu haft áhrif á gerðir Bláskógabyggðar.
Helstu kennitölur úr ársreikningi eru tekjur upp á 2.362.000, aðallega félagsgjöld. Samtals 184 félagsgjöld, á 12000 kr. hvert. Rekstrargjöld voru 3.181.788, þannig að halli án fjármagnskostnaðar var 819.788, fjármagnstekjur voru 112.335, þannig að halli ársins var 707.453. Eignir, bankainnistæða upp á kr. 151.161. Búið er að gjaldfæra hliðin að fullu.
Ekkert er útistandandi í árslok, allir reikningar uppgerðir að fullu.
Reikningar hafa verið undirritaðir af skoðunarmanni félagsins, Sigrúnu Benediktsdóttir.
Spurt var í út í kostnað við hliðin. Stærsti hluti þess kostnaðar var vegna skemmda á hliðum. Slár hreinlega brotnar, tveir mótorar eyðilagðir o.s.frv. Síðan myndavélarnar komu, hefur ekkert slíkt gerst. Og kannske það besta af öllu, að ekkert innbrot hefur verið tilkynnt, eftir því sem við best vitum, sagði formaður félagsins.

Skýrsla stjórnar var svo samþykkt samhljóða, og sama var með reikninga félagsins.
Kosning stjórnar var næst á dagskrá.
Tillaga var um formann til næstu tveggja ára, Magnús Ólafsson. Hlaut hann kosningu með lófataki fundarmanna. Tillaga um meðstjórnanda til tveggja ára, Davíð Einarsson, kosinn með lófataki, og tillaga var um meðstjórnanda til eins árs, Þórð Guðmundsson, einnig kosinn með lófataki. Tillaga um tvo varamenn til eins árs, Hildigunnur Halldórsdóttir og Jóhann Ríkharðsson. Þau voru bæði kosin með lófataki .
Næst var kosning skoðunarmanna reikninga. Fyrst aðalmaður til eins árs, tillaga um Sigrúnu Benediktsdóttur, kjörin einróma og varamaður til eins árs, tillaga um Eddu Erlendsdóttur, hún var einnig kjörin einróma.
Eftir kaffihlé var lögð fram rekstraráætlun fyrir árið 2015.
Davíð Einarsson fór yfir hana. Þar er gert ráð fyrir að fjöldi félagsgjalda verði 186 og miðað við að félagsgjaldið verði hækkað í 15000 kr.. Það gæfi tekjur upp á 2.790.000 en áætluð útgjöld eru 2.739.000.  Rekstraráætlun og árgjald kr. 15000 pr. hús, samþykkt samhljóða.
Næst á dagskrá var kynning á skoðunarkönnun sem gerð var hjá sumarhúsaeigendum. Hildigunnur Halldórsdóttir kynnti niðurstöður og má sjá þær inn á heimasíðu félagsins (sumaruthlid.is).
Önnur mál, þar var spurt um hvort OR ætli að bæta sig varðandi heitt og kalt vatn. Magnús Ólafsson svaraði því til að vandamálið væri að hluta til of grannar stofnæðar og af því fengu bústaðir í efri byggðum oft lítið eða ekkert vatn. Við vonum að OR taki þetta til nánari skoðunar sagði Magnús. Spurt var um snjómokstur, vegaviðhald ofl.
Formaður þakkaði fundarmönnum fyrir góðan fund og stjórnin myndi vinna eftir sem áður í þágu félagsmanna og sagði fundi slitið.
Þórður Guðmundsson ritari

Til baka