Aðalfundur 17.2 2016

Fundurinn var settur af Magnúsi Ólafssyni formanni félagsins kl. 20.00 og lýsti hann ánægju sinni með góða mætingu. Hann gerði það að tillögu sinni að Pétur Maack tæki við fundarstjórn og var það samþykkt með lófataki.

Pétur þakkaði traustið og gerði það að tillögu sinni að Þórður Guðmundsson ritaði fundinn og var það samþykkt samhljóða.

Fundastjóri gerði fundarmönnum grein fyrir því að fundurinn væri hljóðritaður og bað þá sem vildu tjá sig að koma í pontu eða fá hljóðnema fram í sal. Þetta er áríðandi vegna hljóðupptökunnar og eins að allir heyri vel það sem sagt er hvar svo sem í salnum þeir væru staddir.

Til fundarins hafði verið boðað á réttan hátt hátt, bæði með póstlögðu bréfi og eins á heimasíðu félagsins og væri hann því löglegur. Dagskrá fundarins var getið í fundarboði og gerði fundarstjóri ráð fyrir því að menn hefðu kynnt sér hana.

Fyrsta mál á dagskrá var tillaga stjórnar um lagabreytingu.

Hún á við 1. mgr. í 5 gr. laga félagsins. Í stað eftirfarandi málsliðar: „Skal hann boðaður bréflega með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara“ komi:

Boða má til aðalfundar félagsins með rafpósti. Stjórn félagsins og ritari annast skrá sem heldur utan um netföng félagsmanna á hverjum tíma. Félagsmenn sjálfir eru ábyrgir fyrir því að rétt netfang þeirra sé skráð í þeirri skrá. Boða skal til aðalfundar með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Félagsmenn staðfesta rafrænt fundarboð með því að staðfesta móttöku á rafpósti. Sé rafpósti ekki svarað af hálfu félagsmanns telst fundarboð samt sem áður fullnægjandi.

Fundarstjóri las svo upphaf 5 greinar eins og hún er eftir breytingu og hljóðar þá upphaf greinarinnar svona: „Aðalfund skal halda fyrir lok febrúar ár hvert. Boða má til aðalfundar með rafpósti o.s.frv..“

Ekki höfðu borist fleiri tillögur vegna lagabreytinga og var því þessi borin undir atkvæði og var hún samþykkt samhljóða. Ekki þótti ástæða til að lesa 5.gr. í heild sinni eftir breytingar.

Næsta mál á dagskrá var skýrsla stjórnar sem Magnús Ólafsson formaður flutti. Hann byrjaði á því að minnast á hreinsunardaginn sem haldinn var 27. Júní og hefði tekist mjög vel undir dyggri stjórn Magnúsar Kristinssonar og Finnboga Guðmundssonar. Það verður því áframhald á þessu í sumar undir stjórn sömu manna, sem eins og síðast endar með grillveislu fyrir utan Réttina. Það voru flutt fleiri hlöss af trjám sem höfðu verið klippt meðfram vegum ásamt ýmsu fleiru sem varð á vegi hreinsunarmanna. Magnús bað fólk um að taka vel eftir auglýsingu um þennan atburð í sumar, því allir vilja jú hafa sitt nærumhverfi snyrtilegt.

Haldið var áfram við að ganga betur frá búnaði við hliðin, en veturinn áður hafði verið erfiður búnaðinum vegna vatns sem flæddi inn í stjórnkassa og skemmdi hann. Því var þessu breytt, til mikilla bóta og allt annað dæmi nú í vetur, mikið minna um útköll, enda kominn hiti í skápana. Við bættum við myndavélum þannig að nú er hægt að ná í mynd af umferð bæði á leið inn og út. Þetta hefur þegar sannað gildi sitt við að hafa upp á aðilum sem því miður hugsa bara um eigið skinn en ekki fjöldann.

Vafalaust muna flestir eftir skoðanakönnum sem við létum gera til að fá álit sumarhúsaeigenda á hinum ýmsu málum, eins og til að mynda hvort hliðin ættu að vera lokuð allan ársins hring. Mikil meirihluti var með því en þar sem þetta var ekki samþykkt aðalfundar urðum við að beygja okkur fyrir heimamönnum sem voru ekki samþykkir þessu, ásamt örfáum öðrum. Það sýndi sig svo að þegar skyggja tók í ágúst þá var brotist inn í 5 bústaði, hliðin voru ennþá opin eða til 1. september. Það næsta sem gerðist að brotist var inn í bústað eins bankans hér í skóginum, stolið þaðan fjarstýringu og brotist inn í nokkra bústaði í framhaldi af því. Við urðum því að innkalla allar fjarstýringar og endurforrita þær sem var ærin vinna og fyrirhöfn. Einn félagsmaður okkar hjálpaði svo til og hélt hliðum opnum í eina 3 daga sem varð til þess að brotist var inn í aðra sex bústaði. Þetta eru þau innbrot sem stjórninni er kunnugt um og hafa öll komið í kjölfar þess að hliðin voru opin, í fyrsta lagi vegna kröfu landeigenda og svo vegna einhverra sem af ásettu ráði gerðu ráðstafanir til að halda hliðunum opnum án leyfis.

Myndavélarnar hafa sannað sitt gildi því við höfum náð á mynd flestu því sem við vildum ná, t.d. má nefna að í kringum þorrablótið í vetur þá keyrði bóndinn á eitt hliðið og stórskemmdi það og lét engan vita. Bara það að menn sjái sóma sinn í að tilkynna svona tjón er svo mikið atriði. Félagið mun fara fram á bætur vegna þessa tjóns t.d..

Þó mikið púður hafi farið framangreind mál þá höfum við haldið áfram viðræðum við sveitarfélagið vegna vega og sorpmála, þannig að við fengjum eitthvað fyrir okkar fasteignagjöld, nógu og há eru þau samt, en satt best að segja hefur enginn árangur náðst ennþá.

Við höfum verið að ræða við landeigendur vegna vegamála og snjómokstrar og jafnvel að yfirtaka það. Einnig höfum við reynt að grennslast fyrir um það hvað þeir eru að legga mikið af þeim peningum sem við erum að borga í vegina. Það hefur verið fátt um svör en áfram verður haldið í þá átt að félagið taki þetta að sér.

Það gæti orðið breyting á sorpmálum, bændur hafa tilkynnt okkur að gámarnir verði eingöngu fyrir þeirra heimilissorp og eins verður svæðinu þar sem brennan hefur verið, lokað. Þetta verður félagið að skoða á hvern hátt er hægt að ná lendingu með þetta.

Við höfum átt mjög gott samstarf við alla félagsmenn og óskum eftir því áfram, en ljóst er að vegakerfið þarf að bæta og fá rauðamölina í burtu, sagði Magnús að lokum.

Þessu næst fór Davíð Einarsson gjaldkeri yfir reikninga félagsins. Helstu kennitölur voru þessar. Rekstratekjur voru kr. 2.844.000 og rekstrargjöld kr. 4.261.187. Halli ársins að frádregnum fjármunatekjum var kr. 1.336.791. Eignir samtals voru 467.797 og skammtímaskuldir námu 1.635.427.

Nokkrar umræður urðu um þessi tjón sem hafa orðið á hliðunum og það hvernig myndavélarnar koma að gagni þar. Fundarmönnum fannst sérstakt að fólk skuli ekki láta vita ef það veldur skemmdum á búnaðinum.

Ekki urðu meiri umræður um skýrslu stjórnar og reikninga og sem voru nú bornar undir atkvæði. Samþykkt án mótatkvæða.

Næst var kosning til stjórnar. Tveir aðalmenn, þeir Magnús Ólafsson og Davíð Einarsson voru kosnir til tveggja ára í fyrra og Þórður Guðmundsson til eins árs. Þórður gefur ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og því var stungið upp á Daða Friðrikssyni sem aðalmanni til næstu tveggja ára. Samþykkt samhljóða. Varamenn til eins árs. Stungið upp á Hildigunni Halldórsdóttur og Jóhanni Ríkharðssyni, samþykkt samhljóða. Endurskoðandi til eins árs var kjörin Edda Erlendsdóttir.

Davíð Einarsson lagði fram rekstraráætlun fyrir árið 2016. Þar er gert ráð fyrir 188 félagsgjöldum x 16.000 sem gera 3.008.000. Útborganir nema 2.903.000, stærsti hlutinn þar eru ógreiddir reikningar til Icecom vegna kaupa á búnaði og svo Securitas. Þeir hafa verið mjög vinsamlegir við okkur og beðið með harðar innheimtuaðgerðir þar til peningar koma inn núna á þessu ári, þetta ber að þakka sagði Davíð. Þannig að ljóst er að ekki verður farið í miklar framkvæmdir sagði Davíð, enda aðalmálið að greiða upp þær skuldir sem fyrir liggja. Taka skal fram að félagsgjöld hafa dugað fyrir þessum framkvæmdum og aðeins einu sinni farið fram á aukafjárveitingu, það var þegar við keyptum hliðin á sínum tíma. Rekstraáætlun var nú borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

Samþykkt var að hafa árgjaldið kr. 16.000.

KAFFI!!!!!!!

Önnur mál.

Tillaga stjórnar félags sumarhúsaeigenda í Úthlíð sem nú var borin upp hljóðaði svona.

Aðalfundur Félags sumarhúsaeigenda í Úthlíð haldinn 17.febrúar 2016 samþykkir að öryggishliðin í Úthlíð skuli vera lokuð allt árið um kring. Tillagan er lögð fram í ljósi þess að yfirgnæfandi meirihluta svarenda í skoðanakönnum sem félagi efndi til lýsti sig sammála eða frekar sammála slíkri ráðstöfun.

Fór nú fram leynileg kosning, en við komu á fundinn fengu fundarmenn 1 kjörseðil pr. hús.

Á meðan á talningu stóð ræddu menn málin, m.a. sorpmál, breidd á slám við öryggishlið og síðast en ekki síst kom fyrirspurn frá Kristjáni hjá Prentsmiðjunni Odda hvort stjórnin þægi engin laun fyrir sín störf, ef svo væri ekki, þá væri það aðdáunarvert. Honum var svarað og sagt að stjórnin hefði aldrei þegið nein laun, ekki einu sinni eldsneyti. Klappað var fyrir stjórninni af þessu tilefni.

En talningu var nú lokið og var niðurstaðan sú að mikill meirihluti vill hafa hliðin lokuð allt árið um kring, eða 50 á móti 11.

Þá var komið að fundarlokum, en Valgerður Sigurðardóttir bað um orðið og sagðist vilja óska nýrri stjórn til hamingju og þakka Þórði Guðmundssyni kærlega fyrir hans störf fyrir félagið, hún vissi hvað hann hefði lagt mikið af mörkum og alltaf tilbúinn að redda öllum. Formaður tók undir þakkarorð Valgerðar til Þórðar þar sem hann sagði hann hafa verið tilbúinn hvenær sem var, sumar, vetur, vor og haust, klettur í samstarfi. ( innsk. ritari þakkar góð orð í sinn garð)

Og þar með lauk aðalfundi félagsins árið 2016.

Þórður Guðmundsson ritari.

Til baka