Aðalfundur 19.febrúar 2019

Fundur settur kl. 19:05 þann 19.febrúar 2019, í húsi Vigdísar Finnbogadóttur. Mættir voru 49 félagsmenn.

Fundarsetning:
Formaður félagsins Daði Friðriksson setti fundinn og gerði að tillögu sinni að Sævar Gunnarsson sé settur fundarstjóri, sem fundurinn samþykkti. Sævar þakkaði traustið og lagði til að Sveinn Eyland riti fundinn, og samþykkti fundurinn það.

Liður 1:
Daði Friðriksson formaður félagsins las upp skýrslu stjórnar fyrir liðið starfsár og sagði frá störfum stjórnar, stjórnarfundum, samtöl við Brunavarnir Árnessýslu og sveitarfélagið varðandi brunavarnir og sorphirðu auk árangurslítilla samskipta við landeigendur um framtíðaráform og fyrirliggjandi framkvæmdir vegna vegamála. 
Stjórn hefur einnig fundað með Landsambandi sumarhúsaeigenda um fyrrgreind málefni.
Framundan eru breytingar í sorpmálum því Bláskógabyggð mun bráðlega auka flokkun úrgangs og mun það hafa áhrif á sumarhúsaeigendur.
Daði upplýsti að leitað hafi verið tilboða til að grisja þéttan gróður við vegi í skóginum og stefnt er að grisjun innan tíðar, í samráði við landeigendur.
Þá sagði hann frá því að sumarhúsafélagið hafi tekið yfir rekstur öryggishliðanna í skóginum af Securitas.
Sagði formaður einnig frá því að verið væri að vinna drög að húsreglum fyrir félagið sem sett verða á vef félagsins: http://www.sumaruthlid.is og að RARIK hefði síðastliðið haust unnið að því að setja upp nýja rafmagnsmæla í hvert hús fyrir sig í skóginum.
Þá benti hann félagsmönnum á að skoða vefinn http://www.grodureldar.is en þar má finna mikið af upplýsingum er snúa að brunavörnum og aðgerðum ef það kemur upp bruni í skógi/sumarbústaðarhverfi.
Daði nefndi að stefnt væri á að hafa hreinsunardag í skóginum í vor og væri það tilkynnt þegar nær dregur.

Formaður minnti félagsmenn á að umgengni um hlið og aðrar eignir félagsins eru á ábyrgð félagsmanna allra og allir þurfa að vera vakandi fyrir því að vernda eigur félagsins og sýna frumkvæði í þeirri hagsmunagæslu.

Fundarstjóri lagði til að umræða um skýrslu stjórnar, reikninga félagsins og áætlun færu fram samtímis.

Liður 2:
Helga Hilmarsdóttir, gjaldkeri félagsins, fór yfir rekstrar- og ársreikning félagsins fyrir árið 2018.
Helstu kennitölur voru þessar:
Rekstratekjur voru kr. 3.700.000, sem samanstóð af félagsgjöldum, tengigjöldum vegna hliða og tjónabótum. Áætlun var rétt rúmar kr. 3.000.000,-.
Helga fór yfir sundurliðun rekstrargjalda en rekstrargjöld voru kr. 1.900.000,-  Rekstrarafgangur var því uppá kr. 1.800.000,- fyrir fjármagnsliði. 
Hagnaður ársins eftir fjármagnsliði var kr. 1.900.000,-.
Öll félagsgjöld eru greidd, ekkert útistandandi.
Eignir samtals voru kr. 5.174.000,- og skammtímaskuldir voru kr. 360.000,-. 
Eigið fé er jákvætt uppá kr. 4.800.000,-.
Hún minntist á undirritun skoðunarmanns, Davíðs Einarssonar.

Helga gerði grein fyrir tillögu stjórnar að félagsgjöld yrðu óbreytt kr. 16.000,-.  Hún lagði þvínæst fram rekstraráætlun fyrir árið 2019. Þar er gert ráð fyrir 195 félagsgjöldum x kr. 16.000,- sem gera kr. 3.120.000.  Útborganir nema kr. 2.300.000,- og hagnaður kr. 980.000,-. Sjóðstaða í lok árs 2019 verði því rétt um kr. 6.150.000,-

Fundarstjóri þakkaði Helgu fyrir yfirferð hennar um reikninga og áætlun. Hann gaf þvínæst orðið laust vegna umræðu um skýrslu stjórnar, reikninga félagsins og áætlun.

Spurningar komu úr sal í framhaldi af kynningu á ársreikningi og rekstraráætlun:
-Magnús óskaði eftir frekari útskýringu á liðnum „Grisjun trjáa við vegi“.
D.F. svaraði því að það þyrfti að grisja gróður meðfram vegum á mörgum svæðum til þess að fyrirbyggja hættur, koma í veg fyrir skemmdir á bifreiðum og einnig að stuðla að betri „brunahólfun“ í skóginum.
-Björgvin Andri kom með spurningu varðandi liðinn „Tekjur af hliði“.
D.F. svaraði því að þarna væri um að ræða svokallað tengigjald sem að verður til þegar nýjir aðilar koma á svæðið og þá myndast vinna við að stofna viðkomandi aðila í grunninum okkar.
-Björn Orri bar upp spurningu sem snéri að snjómokstri og vegi, Sævar fundarstjóri svaraði því til að það yrði farið sérstaklega í þessa liði síðar á fundinum.
-Ragnar bar upp spurningu varðandi félagsgjöldin og hvort að félagið væri að safna í einhverja sjóði.
D.F svaraði því og útskýrði fyrir fundinum að það kostaði sitt þegar kæmi að endurnýjun á hliðum, myndavélakerfi, viðhald á þessum hlutum, kostnað við grisjun á gróðri og fleira er fellur til að rekstri félagsins. Auk þess sé spurning hvort félagið komi að einhverju leyti að viðhaldi vega á einhverjum tíma.
Magnús nefndi í þessu samhengi að endurnýjun alls búnaðar gæti numið 6-7 milljónum króna.
-Einar Hólm kom með spurningu um brunavarnir og viðbragðsáætlanir í skóginum. Sævar fundarstjóri svaraði því til svipað og áður að það yrði farið í þessa liði síðar á fundinum en umræður undir þessum dagskrárlið væru vegna ársreiknings og rekstraráætlunar.
-Spurningar komu upp varðandi brunavarnir í hverfinu og hvort að hægt væri að setja upp brunahana í hverfið og eins hvar næsta slökkvistöð sé á svæðinu.

Að umræðum loknum bar fundarstjóri upp;
-ársreikning til samþykktar, sem var samþykktur af fundarmönnum.
-rekstraráætlun ársins 2019, sem var samþykktur af fundarmönnum.
-félagsgjöld fyrir árið 2019 (óbreytt), sem var samþykkt af fundarmönnum.

Liður 3.
Kosning stjórnar og skoðunarmanna.
Sævar fundarstjóri las upp framkvæmd á kosningu til stjórnar samkvæmt lögum félagsins.
Tillaga um stjórnarkjör:
Daði Friðriksson formaður til tveggja ára, Helga Hilmarsdóttir gjaldkeri og Sveinn Eyland ritari til tveggja ára, Jóhann Sigþórsson meðstjórnandi og Magnús Ólafsson meðstjórnandi til eins árs.
Skoðunarmaður: Davíð Einarsson.

Fundarmenn samþykktu framlagða tillögu um stjórnarkjör og skoðunarmann.

Kl.19.35 var gert kaffihlé í 20 mín.
Fundur hófst aftur kl.19:55.

Liður 4.
Umræða undir dagskrárliðnum Önnur mál.

-Einar Hólm kom með spurningu um brunavarnir og viðbragðsáætlanir í skóginum.
D.F. svaraði því að stjórn sé í sambandi við fjóra aðila vegna brunavarna.  Samtöl væru við Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, Landsamband sumarhúsaeigenda, Brunavarnir Árnessýslu
og Bláskógabyggð.  Það er á herðum hvers sveitarfélags fyrir sig að veita þjónustu slökkviliðs ef til eldsvoða kemur. Eins benti hann á vefinn grodureldar.is
-Fyrirspurnir bárust einnig um það hvort að viðbragðsaðilar og Veitur gætu ekki fengið símanúmer/aðgengi að hliðum.
D.F. sagði að þessir aðilar væru nú þegar með aðgengi að hliðum.
-Guðbjörg Alfreðsdóttir sendi skriflegt erindi til fundarins.  Erindið varðaði:
1. Tillögu um uppsetningu brunahana í skóginum.
2. Banna alla notkun flugelda og hverskonar elds utandyra.
Nokkur umræða skapaðist um erindi Guðbjargar og urðu fundarmenn sammála um að vísa erindinu til stjórnar til umfjöllunar og afgreiðslu.
- Grímur Helguson sendi skriflegt erindi til fundarins varðandi verklag við snjóruðning og aðgengi þjónustuaðila eins og Veitna um hlið í skóginum.
Mikil umræða var um snjóruðning, verklag og innheimtu kostnaðar. Fríða sagði frá því að ef að fólk myndi hringja í Réttina og láta vita í tíma, þá væri minnsta málið að láta moka innkeyrslu upp að húsi fyrir sig gegn vægu gjaldi.
-Werner tók til máls varðandi brunavarnir og spurði hvort ekki mætti bara setja upp sírenur í skóginum sem yrðu gangsettar ef vart yrði við eld. Eins sagði hann að leggja brunahana í hverfið væri alltof kostnaðarsamt og myndi væntanlega aldrei nást í gegn.
- Guðrún Jakobsdóttir spurði út í tæmingar á rotþróm um að hvernig fólk vissi hvort að að væri búið að tæma og hvort að þær væru almennt tæmdar.
Áður fyrr voru settir límmiðar í glugga á viðkomandi húsi þegar að búið væri að tæma en það er víst hætt, nú er hægt að finna þessar upplýsingar inná http://www.blaskogabyggd.is
Sævar ræddi frekar um brunamál og brunavarnir er snúa að sveitarfélaginu.

Liður 5.
Formaður Daði Friðriksson ræddi stöðu félagsins gagnvart eigendum Úthlíðar vegna vegamála, s.s viðhaldi vega og snjómokstri auk sorpmála. Svör landeigenda varðandi kostnað við vegaframkvæmdir eru ófullnægjandi og engar upplýsingar um framtíðaráform og fyrirliggjandi framkvæmdir liggja fyrir.
Formaður og ritari fóru t.d á fund með formanni félags sumarhúsaeigenda til þess að fá ráð og ræða við hann stöðuna sem upp er komin og hvernig best sé að snúa sér í þessum efnum.

Í framhaldi af þessu lagði fundarstjóri til að fundurinn veitti stjórninni umboð til þess að koma fram fyrir hönd húseigenda/lóðareigenda til þess að ræða við landeigendur að Úthlíð.
-Fundurinn samþykkti þessa tillögu og gaf stjórninni umboð til þess að koma fram fyrir hönd þeirra í viðræðum við landeigendur.

Werner þakkaði stjórninni fyrir vel unnin störf og óskaði þeim til hamingju með áframhaldandi störf og og kjör og bað fundinn að klappa fyrir stjórninni.
Daði þakkaði Werner fyrir.

Fundi slitið kl.20:40.
Daði Friðriksson formaður þakkað fyrir góðan fund og félagsmönnum fyrir komuna.
Þá þakkaði hann Sævari góða fundarstjórn.
Fundarstjóri gat þess að ritari og fundarstjóri myndu ganga frá fundargerð í sameiningu.

Til baka