Aðalfundur 25.febrúar 2020

1. Fundur settur. Val á fundarstjóra og fundarritara.

Formaður sumarhúsafélagsins Daði Friðriksson setti fundinn kl.19.10 og stakk uppá að Jóhann Gunnar Stefánsson verði fundarstjóri og var það samþykkt.
Jóhann tekur við fundarstjórn og leggur til að Sveinn Eyland riti fundinn og var það samþykkt.
Engar athugasemdir voru gerðar við boðun fundarins og lýsti fundarstjóri hann lögmætan þar sem að löglega var til hans boðað með tölvupósti og upplýsingar settar fram á heimasíðu og Facebooksíðu félagsins.
Mætingarlisti lá frammi við inngang þar sem að fundarmenn merktu við og mættu 34  félagsmenn, fulltrúar 21 sumarhúsa af 200 í Úthlíð.

Fundarstjóri bendir félagsmönnum á að ekki verði hlé á fundi en kaffiveitingar verði hér frammi að loknum venjulegum aðalfundarstörfum og svo taki við erindi frá Brunavörnum Árnessýslu.
Fundarstjóri gengur til dagskrár og leggur til að umræða um skýrslu stjórnar, reikninga félagsins og áætlun fari fram samtímis og þá verði einnig kosið um reikninga, árgjald og áætlun.
Fundarstjóri kynnir Daða Friðriksson til að flytja skýrslu stjórnar.

2. Skýrsla stjórnar.
Formaður flutti skýrslu stjórnar;
Daði nefndi að á síðasta starfsári hafi verið tekist á við stór hagsmunamál félagsmanna og fróðlegt verði að fylgjast með framvindu þeirra á næstu misserum.
Daði gat þess að hann myndi fara stuttlega yfir helstu verkefni en freista þess að fara nánar í þau seinna í dagskrá fundarins.

Varðandi vegamál og snjómokstur, þá er hvorttveggja nú í ásættanlegum farvegi í góðu samstarfi við Ferðaþjónustuna og Geir Goða.

Rollur í lausagangi voru til vandræða í skóginum síðasta sumar og er þar m.a. um að kenna ónýtri girðingu milli Úthlíðar og Dalsmynnis auk þess sem hlið efst á Miðfellsvegi þarfnast endurnýjunar.  Einnig hafa þeir sem um hliðin ganga ekki alltaf gætt þess að loka þeim og Daði hvatti félagsmenn og gesti þeirra til að loka á eftir sér.
Umrædd girðing verður endurnýjuð í sumar og nýtt hlið verður sett upp efst á Miðfellsvegi. 
Að þessum framkvæmdum loknum og með betri umgengni ætti rolluváin að vera fyrir bí.

Daði sagði öryggishlið gera það sem þau áttu að gera því stjórn hefur ekki borist til eyrna að nokkurt innbrot hafi verið framið í sumarhús á svæðinu á síðasta starfsári.

Í nóvember var trjágróður grisjaður meðfram vegum í skóginum.
Mikið og þarft verk, því þetta stuðlar að meira umferðaröryggi, kemur í veg fyrir skemmdir á ökutækjum og einnig tryggir þetta betri brunahólfun í skóginum.
Framkvæmdin dróst fram eftir öllu ári vegna allskonar tafa en þetta hafðist á endanum. Daði nefndi að Þegar snjóa leysir verður farið í seinni yfirferð þar sem lággróður í vegköntum verður grisjaður. Félagsmenn þurfa að fjarlægja afskurð af vegum og vegköntum áður en verktakinn fer aftur af stað og er hugmynd stjórnar að hreinsunardagurinn þetta árið verði notaður til þess.

Daði gat þess að drög að „Húsreglum skógarins“ hafi verið settar á vef félagsins „sumaruthlid.is“, í apríl í fyrra til að gefa félagsmönnum færi á að kynna sér skjalið og gera athugasemdir.  Engar athugasemdir bárust.
Tilmæli stjórnar eru að félagsmenn kynni sér efni skjalsins og upplýsi gesti sína samhliða.  Daði sagði það ekki verra ef skjalið væri aðgengilegt gestum í sumarhúsum félagsmanna.
„Húsreglur skógarins“ er hugsað sem lifandi skjal til að ramma inn ákveðin tilmæli til að gera góð samskipti okkar í skóginum enn betri.
Daði hvatti þá félagsmenn sem ekki eru ennþá komnir í facabookhóp félagsins til að taka þátt. Hópurinn heitir „Sumarhúsaeigendur í Úthlíð“.

Stjórn hefur á síðasta starfsári átt viðræður um brunavarnir og skógarelda við Bláskógabyggð, Brunavarnir Árnessýslu auk annarra aðila en ljóst er að nokkur vinna er í gangi m.a. við að skilgreina gróðurelda sem náttúruvá og móta tillögur um skuldbindingu innviða samfélagsins gagnvart henni.

Daði sagði stjórn hafa fjallað um erindi Guðbjargar Alfreðsdóttur, sem vísað var til stjórnar á síðasta aðalfundi.  Erindið varðaði uppsetningu brunahana og bann við notkun flugelda og elds utandyra. Fjallað er um notkun elds í Húsreglum skógarins en umfjöllun um brunavarnir hefur verið í gangi ásamt hagsmunaaðilum og þar er skoðað hvaða aðgerðir eru gerlegar og vænlegastar til árangurs.

Sumarhúsaeigendum barst í janúar bréf frá sveitarfélaginu um úrgangsmál og klippikort til að nota á gámastöðvum.
Stjórnin ásamt ferðaþjónustunni í Úthlíð og Geir goða ehf. sendu formlegt erindi til sveitastjórnar vegna sorpmála til að ná því fram að sorpílát á vegum sveitarfélagsins séu meira í nánd við sumarhúsahverfið og tæk til flokkunar.

Daði upplýsti fundarmenn um að í nóvemberbyrjun auglýstu Veitur til sölu bæði hitaveitu og vatnsveitu í Úthlíð. Daði sagði það ljóst að félagsmönnum sé það ekki í hag að veiturnar séu seldar.
Stjórnin átti fjölmörg samtöl við hagsmunaaðila í sveitarfélaginu s.s. VR, BHM, Ferðaþjónustuna og Geir Goða, þar sem lýst var áhyggjum af þessari þróun.
Veitur drógu útboðið til baka um miðjan nóvember og seinna þann mánuð mættu hagsmunaaðilar til fundar við Veitur þar sem opinskátt var farið yfir málið og fjallað um sjónarmið aðila.

Daði sagði að allnokkuð umstang hafi verið á síðasta ári vegna hliða og búnaðar félagsins við þau. 
Meðal annars þurfti að setja festingar og hengilása á skápana við hliðin vegna skemmda á þeim þegar gestir í skóginum reyndu að opna þá með afli.
Nokkur viðvarandi vinna er við útskiptingu og breytingu á númerum en stjórnin sinnir þeim verkefnum.
Reglulegt viðhald þurfti að fara fram auk endurnýjunar á miðlægum búnaði en Daði sagði reksturinn ótrúlega lítinn miðað við umferðina sem er um hliðin.
Daði sagði hliðin og myndavélarnar hafa sannað gildi sitt því stjórn hefur ekki fengið tilkynningu um innbrot á síðasta ári.

Formaður, líkt og áður, benti fundarmönnum á að umgengni um hlið og aðrar eignir félagsins eru á ábyrgð félagsmanna og þeir þurfa að vera vakandi fyrir því að vernda eigur félagsins og sýna frumkvæði í þeirri hagsmunagæslu.

3. Ársreikningur 2019 yfirfarinn, árgjald kynnt, áætlun yfirfarin, umræður og atkvæðagreiðsla.
Helga Hilmarsdóttir, gjaldkeri félagsins, fór yfir rekstrar- og ársreikning félagsins fyrir árið 2019. Og hér eru helstu tölur.
Rekstrartekjur voru kr. 3.338.000.- rekstrargjöld kr. 1.777.668.-
rekstrarafgangur kr. 1.751.609.-
Eignir samtals 31.12.2019 kr. 7.255.542.-
Skammtímaskuldir voru kr. 686.884,-
Eigið fé er jákvætt kr. 6.568.658,-

Hún minntist á undirritun skoðunarmanns, Davíðs Einarssonar.

Helga gerði grein fyrir tillögu stjórnar að félagsgjöld yrðu óbreytt fyrir árið 2020 kr. 16.000,-. 
Hún fór því næst yfir einstaka liði í rekstraráætlun fyrir árið 2020 sem hljóðar uppá tekjur kr. 3.410.000.-, útgjöld kr. 3.110.000,-. Hagnaður því áætlaður kr. 300.000,-

Fundarstjóri þakkaði Helgu fyrir yfirferð hennar um reikninga, árgjald og áætlun.

Fundarstjóri gaf því næst orðið laust vegna umræðu um skýrslu stjórnar, ársreikning félagsins, tillögu um árgjald og áætlun.

Spurningar bárust úr sal:
Frá Werner:
En hann spurði hvort að ekki væri hægt að fá útprentaðan ársreikning, svo spurði hann um hvað Icecom væri. Eru fyrirhugaðar framkvæmdir vegna hliða sem skýra aukið áætlað fjármagn í þau?
Frá Benedikt:
Af hverju væri sjóðssöfnun svona mikil ?
Hefur stjórn sett sér stefnu í sjóðssöfnun? Upp í hvaða fjárhæð á að safna?

Formaður stjórnar Daði Friðriksson svaraði spurningum fundarmanna.
Hann nefndi að aðalfundir félagsins hafi verið pappírslausir um langa hríð og fundarmenn kynni sér reikninga og áætlun á skjá. Hinsvegar væri til skoðunar að senda fundarmönnum reikninga fyrir fund, þeim til kynningar.
Stjórn hefur rætt að halda áfram með uppbyggingu hliðanna og setja mögulega „mottu“ fyrir innan hlið til að félagmenn þurfi ekki að hringja sig út.  Áframhaldandi viðhald búnaðar heldur einnig áfram.
Hliðin og búnaður gengur úr sér með tímanum og þegar endurnýjun þarf að fara fram, þá er gert ráð fyrir því að sjóðir félagsins dugi fyrir þeirri fjárfestingu auk rekstrar.
Stjórn hefur ekki sett sér aðra stefnu um sjóðssöfnun.

Að umræðum loknum bar fundarstjóri upp;
-Ársreikning 2019 til samþykktar, sem var samþykktur af fundarmönnum.
-Félagsgjöld fyrir árið 2020 (óbreytt), sem var samþykkt af fundarmönnum.
-Rekstraráætlun ársins 2020, sem var samþykkt af fundarmönnum.

4. Kosning formanns og stjórnarmanna félagsins.
Fundarstjóri fór yfir kjör til stjórnar félagsins.
Ekki er kosið um formann þar sem Daði Friðriksson var á síðasta ári kjörinn til tveggja ára.  Daði hefur sinnt þessu hlutverki undanfarin þrjú ár.
Ekki er kosið um aðalmenn þar sem Helga Hilmarsdóttir og Sveinn Eyland voru á síðasta ári kjörin til tveggja ára.
Varamenn í stjórn: Jóhann Sigurþórsson gefur áfram kost á sér en Magnús Ólafsson óskar þess að stíga til hliðar. Sigrún Dóra Jónsdóttir gefur kost á sér.
Fundarstjóri bar tillögu upp til atkvæðagreiðslu. Sem var samþykkt af fundarmönnum.

5. Kosning skoðunarmanna reikninga.
Davíð Einarsson tilnefndur áfram sem skoðunarmaður reikninga félagsins.
Fundarstjóri bar tillögu upp til atkvæðagreiðslu. Sem var samþykkt af fundarmönnum.

6. Önnur mál.
Fundarstjóri gaf formanni orðið undir þessum dagskrárlið.

Formaður félagsins Daði Friðriksson tók til máls og sagðist myndu fjalla stuttlega um helstu mál sem getið var um í fundarboði.

Vegamál og snjómokstur:
Daði upplýsti að núverandi fyrirkomulag vegna vegamála sé að landeigendur hafi samið við Jóhannes á Brekku um að sjá um að sumarhúsavegir í Úthlíð séu í lagi.  Í því fellst að halda áfram að undirbyggja þá eftir þörfum auk þess að leggja yfirlag. Vegirnir verða heflaðir reglulega.
Daði nefndi að rétti farvegurinn fyrir óskir eða athugasemdir vegna vegaúrbóta sé að senda tölvupóst á uthlid@uthlid.is og Ferðaþjónustan kemur þeim póstum áleiðis til Jóhannesar.
Varðandi snjómoksturinn þá eru aðalleiðir mokaðar eftir þörfum alla föstudaga og sunnudaga.
Daði sagði það tilmæli til félagsmanna að senda tölvupóst á uthlid@uthlid.is eða hringja í síma 699-5500, til að láta vita af komu sinni og óska eftir mokstri inn í innkeyrslur.
Þurfi félagsmenn að láta moka á öðrum tímum, þá er greitt fyrir það sérstaklega.
Ferðaþjónustan setur á föstudögum tilkynningar um færð á Facebook síðu ferðaþjónustunnar. 

Hlíðaveita:
Formaður nefndi að Veitur hafa sagt að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort og þá hvenær veiturnar verði boðnar til sölu að nýju.
Veitur hafa hinsvegar sagt að stefna fyrirtækisins sé að selja frá sér minni veitur og einbeita sér að svokallaðri kjarnastarfsemi.  Stjórnin mun áfram fylgjast með framvindu þessa máls.

Grisjun trjágróðurs:
Daði sagði afskurð ekki hafa verið fjarlægðan vegna þess að ekki var samið um það við verktakann m.a. til að halda kostnaði í lágmarki og auk þess hríðversnaði tíðarfar að lokinni grisjun sem gerði óhægt um vik að fjarlægja afskurðinn.  Hins vegar benti Daði á að í tilkynningum stjórnar á Facebook síðu félagsins voru félagsmenn hvattir til að fara um sitt nærumhverfi og fjarlægja greinar og hann þakkaði þeim sem svöruðu því kalli.


Húsreglur skógarins:
Daði sagði skjalinu hafa verið dreift á fundinum og það verði kynnt á vef félagsins.  Hann gat þess að um lifandi skjal væri að ræða sem þróast og tekur breytingum eftir athugasemdum félagsmanna.

Sorpmál:
Formaður gat þess að formlegt erindi hafi verið sent Bláskógabyggð og því erindi verður fylgt eftir af stjórn.

Brunavarnir:
Daði nefndi að Sverrir Haukur Grönli haldi erindi að loknum aðalfundarstörfum og fróðlegt verði að heyra það sem hann hefur fram að færa.

Að lokinni framsögu formanns gaf fundarstjóri orðið laust undir önnur mál.

Eftirfarandi spurningar bárust úr sal frá fundarmönnum:

Werner
Hefur einhver í skóginum sótt um að vera með lögheimili í sumarhúsi sínu?
Hann nefndi að lífsspursmál væri fyrir félagsmenn að Veitur annist veitustarfsemi í Úthlíð en ekki einkaaðilar.

Jóna
Stendur vilji landeigenda til þess að hafa leiksvæði fyrir börn á svæðinu?  Það var áður en var tekið niður.
DF. Eflaust er erfitt að halda úti leiksvæðum á sameiginlegum svæðum í skóginum og telur að tæki hafi verið fjarlægð af landeigendum þar sem að þau hafi þurft starfsmann og sér leyfi til þess að halda þessu opnu. Stjórn muni kanna stöðu þessara mála.
DF. Svaraði að stjórn sé ekki kunnugt um umsókn um lögheimili í skóginum.

Einar
Spurði um kostnað vegna sértæks snjómoksturs.
DF. Svaraði til að mokstur utan uppgefinna daga að beiðni sumarhúsaeigenda sé greiddur af beiðanda.

Egill
Gæti félagið komið að fjármögnun sameiginlegra leiktækja í skóginum?
DF. Sagði stjórnin myndi kanna þessi mál og hvort rétt væri að félagið kæmi að þessu.

Benedikt
Er ekki þörf á tryggingum s.s. ábyrgðatryggingu vegna reksturs hliðanna?
DF. Sagði þetta vera mjög góða ábendingu og stjórn muni skoða málið.

Ólafur
Síðast þegar hann fékk sértækan snjómokstur þá fékk hann reikning uppá 55þús.
DF. Svaraði að líklega hafi umfang snjómoksturs verið töluvert mikið þar sem að þurft hafi að kalla til utanaðkomandi aðila til þess að moka með stærri vélum en tiltækar séu í Úthlíð.

Andrés
Hans bústaður og Werners eru utan hliða. Tillaga hans að setja myndavél til að tryggja öryggi?
DF. Svaraði að stjórn muni skoða þetta.

Tillaga um ályktun fundar til stjórnar:
Tillaga barst frá GuðjóniHaraldssyni og Sigríði Siemsen, Djáknavegi 2:
„Fundurinn ályktar að fela stjórn að setja upp hraðamerkingar og merkingar um gangandi umferð við öll sláarhlið inn í hverfi sumarhúsalandsins.“

Nokkur umræða varð um hraðakstur, rykmengun þess vegna, merkingar almennt, ákvörðun hámarkshraða, fælingarmátt skilta ofl.
Að lokinni umræðu kom breytingartillaga frá fundarmönnum að :
„Stjórn finni mögulegar leiðir til að stemma stigu við hraðaakstri hvort sem er með uppsetningu skilta eða með öðrum hætti í hverfinu.“

Gengið var til atkvæða um breytingartillöguna og var hún samþykkt.

Fundarstjóri sló botn í umræðu undir þessum dagskrárlið og gat þess að ritari og fundarstjóri muni ganga frá fundargerð í sameiningu og hún verði svo birt á vef félagsins http://www.sumaruthlid.is

7. Lokaorð og fundarslit.
Fundarstjóri bauð formanni félagsins, Daða Friðrikssyni að taka til máls.

Formaður þakkaði fundarmönnum fyrir góðan fund og umræður um málefni félagsins. 
Hann þakkaði fyrir það traust sem stjórninni er sýnt og Jóhanni Gunnari fyrir styrka fundarstjórn.
Daði bauð Sigrúnu Dóru velkomna í stjórn og þakkaði Magnúsi Ólafssyni kærlega fyrir óeigingjarnt starf í þágu félagsins til fjölda ára. 
Að lokum sagðist formaður hlakka til góðs samstarfs við stjórn og félagsmenn alla á starfsárinu.
Formaður sleit svo fundi
Fundi slitið kl.20.00.

Fundarstjóri tilkynnti að Haukur Grönli frá Brunavörnum Árnessýslu flytji erindi um brunavarnir og skógarelda að loknum kaffiveitingum.

Fundarstjóri býður fundargestum að njóta kaffiveitinga.

8. Erindi utan fundar.
Jóhann kynnir Sverri Hauk Grönli frá Brunavörnum Árnessýslu til að flytja erindi um brunavarnir og skógarelda.

Erindi Hauks var mjög áhugavert en hann benti á að mikið af upplýsingum megi finna á https://www.grodureldar.is sem vert væri að kynna sér.

Til baka