Fundur með forsvarsmönnum sumarhúsafélaga

Mætt f.h. Bláskógabyggðar:  Drífa Kristjánsdóttir oddviti, Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri, Kristinn J. Gíslason forstöðumaður þjónustu og framkvæmdasviðs, Helgi Kjartansson, formaður byggðaráðs Bláskógabyggðar, Valgerður Sævarsdóttir, sveitarstjórnarmaður og Margeir Ingólfsson sveitarstjórnarmaður.

Mætt fyrir hönd sumarhúsafélaga:  Daníel Árnason, fh. Sumarhúsafélagsins Sandskeið í landi Miðfells, Þórður Guðmundsson, Úthlíð, Magnús Ólafsson, Úthlíð, Stefán H. Stephensen Efri-Reykjum, Brynjar Dagbjartsson, Birgir Guðjónsson f.h. Eigendafélagsins Dynjandi (Spóastöðum) og Sighvatur Elefsen, f/ Fell frístundafélag.

Óskað hafði verið eftir umræddum fundi af hálfu sumarhúsaeigenda og fyrir lá ósk um dagskrá fundarins.

  1. Sorphirða í sumarhúsabyggðum
  2. Brunavarnir
  3. Seyrugjald
  4. Sveitarstjórnarlög 138/2011 grein 102
  5. Vegir í sumarhúsabyggð
  6. Deiliskipulög.

Drífa setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna og lýsti ánægju sinni yfir að menn skyldu koma saman og ræða málin.

Tillaga kom frá Birgi Guðjónssyni í upphafi fundar, um að rituð yrði fundargerð sem yrði kynnt fyrir sveitarstjórn og henni gerð sömu skil og aðrar fundargerðir sveitarstjórnar.  Hann lagði einnig til að fundurinn yrði formlegur að því leyti að fólk bæði um orðið og ræddi málin af yfirvegun og kurteisi og hann sagði að líta bæri á það sem sjálfsagðan hlut að halda fund sem þennan.    Þetta var samþykkt og Drífa tók að sér að rita fundargerðina.

1. Fyrsta mál á dagskrá, sorphirða í sumarhúsabyggðum.
Drífa hóf umræðuna og rifjaði upp breytingar sem samþykktar voru  á sorpmálum í sveitarfélaginu í lok árs 2009 og komu til framkvæmda árið 2010.  Sagði hún frá annmörkum á framkvæmdinni sem voru lagfærðar með því að setja upp lúgu á gámasvæðunum sumarið 2010 en ári seinna voru gámasvæðin opnuð allan sólarhringinn þannig að fólk gat gengið inná þau og afsett heimilissorpið sitt.  Tilgangur með breytingu á sorpmálunum var að reyna að minnka magn sorps og ekki síður að hefja flokkun á sorpi og gera það verðmætara og kostnaðarminna að afsetja það.  Hún upplýsti að 2.800 tonn hefðu verið urðuð af sorpi árið 2008 en það hefði minnkað niður í 800 tonn á tveimur árum.  Hún benti fundarmönnum á, að íbúar Bláskógabyggðar, hefðu tekið á sig mikla kostnaðaraukningu við breytingu á sorphirðingunni en sveitarfélagið hefði ákveðið að setja ekki þær byrðar á sumarhúsin.  Einungis væri innheimtur kostnaður af sumarhúsum vegna sorpeyðingar en vænst hefði verið að fólk ákveddi sjálft innan sinna sumarhúsafélaga hvernig það hagaði sorphirðingunni svo ekki þyrfti að setja mikil álög á sumarhúsin vegna sorphirðunnar.  Mjög misjafnlega háttaði til í sumarhúsahverfunum, í sumum væri viðvera fólks ekki mikil, en í öðrum væri því öðruvísi farið.  Sveitarfélagið þarf að gæta jafnræðis og því hefði þurft að setja sömu gjöld á alla en það hefði verið mat sveitarstjórnar að hlífa fólki við því.
Valtýr fór yfir samþykktir og úrskurði og útskýrði á hvern hátt sveitarfélagið hefði lagfært samþykktir sínar til að fara að niðurstöðu úrskurðarins.
Margeir tók til máls og rifjaði upp að í sveitarfélaginu hefðu verið rúmlega 80 gámar út um allt og mikið sorp verið afsett og ekkert flokkað.  Það var mjög dýrt enda mikill akstur afar kostnaðarsamur með sorp sem allt var jarðsett. 
Helgi tók til máls og þakkaði fyrir fundinn.  Hann áréttaði að sumarhúsaeigendur væru hluti af samfélagi Bláskógabyggðar og því mikilvægt að eiga við þá samtal.  Helgi leitaði eftir upplýsingum frá Kristni og Valtý um tölur yfir það hvað sumarhúsafélög væru að borga fyrir valkvæða sorphirðu þ.e. þau félög sem hafa samið beint við þjónustuaðila um sorphirðuna.  Valtýr nefndi dæmi um félag sem greiðir mjög lágt gjald á bústað vegna þess að þeir semja beint við þjónustuaðilann.   Sveitarfélagið yrði að beita jafnræðisreglu og því þyrftu allir bústaðir að greiða jafnt fyrir sorphirðu og það gjald yrði margfalt hærra.  Helgi hvatti félögin til að skoða þennan möguleika betur.
Kristinn bar saman kostnað annarra sveitarfélaga af sorphirðu.  Hann er mjög mishár, ódýrastur þar sem þéttbýlið er mest og styst er í urðunarstaði.
Magnús spurði hver fjöldi sumarhúsa er í sveitarfélaginu.  Ekki var hægt að svara þeirri spurningu nákvæmlega, þau talin vera um 1900. (Við frekari skoðun á málinu kemur í ljós að þau eru 1824)  Hann spyr líka um heildarfasteignagjaldatekur af sumarhúsum en ekki var hægt að upplýsa um það á fundinum.  Sveitarstjóri sagðist myndu skoða hvort hann keypti slíkar upplýsingar af fasteignamati ríkisins en þeir einir geta fundið þetta út úr sínum gögnum.
Stefán gerði að tillögu sinni að Bláskógabyggð rukkaði gjaldið sem sumarhúsafélögin semdu um við þjónustuaðilann vegna sorphirðingargjalds.  Birgir hvatti til þess að þetta yrði skoðað betur af hálfu sveitarfélagsins.  Ákveðið var að taka þetta til frekari skoðunar og kynna niðurstöðu þeirrar skoðunar í haust.

2. Brunavarnir:
Drífa sagði frá því að Brunavarnir Árnessýslu væru með þennan málaflokk fyrir sveitarfélagið.  Hún sagði að sveitarfélagið væri landmikið og þótt íbúar væru einungis 1000 þá væru sumarhúsin mörg og fólksfjöldi mikill í sumarhúsum og aðrir ferðamenn.   Gróður væri orðinn mjög mikill og oft þurr.  B.Á. væri að vinna brunaaðgerðaráætlun.  Mikilvægt væri að sumarhúsafélögin fengju upplýsingar um þá vinnu þegar hún liggur fyrir.  
Magnús lagði áherslu á að þetta væri mikilvægur málaflokkur. 
Valtýr sagði að sveitarfélagið tæki brunavarnir mjög alvarlega, verð sé að móta viðbragðsáætlun  á sumarhúsasvæðunum.  Hann sagði frá frumkvæði aðila í Mannvit og að þeir væru að vinna viðbragðsáætlun í austasta hluta Úthlíðarsumarhúsasvæðisins.
Daníel lýsti yfir ánægju sinni á  átaki sveitarstjórnar í brunavarnarmálum.

3. Seyrugjald:
Seyrulosun úr rotþróm hófst árið 2005 í samstarfi við Grímsnes-og Grafningshrepp, rotþrær tæmdar á þriggja ára fresti.  Þetta var talsvert erfitt verkefni í upphafi, oft erfitt að finna rotþrærnar og merkja þær. 
Árið 2008 var tekin ákvörðun um að nýta landupplýsingakerfið Granna og skrá allar rotþrær í það.  Mikil skráningarvinna hefur farið fram og grunnurinn eflist stöðugt.  Verkfærin batna stöðugt og skráningin verður meiri og betri.  Hægt er að fylgjast náið með losun rotþróa. 
Fram kom að upplýsingar um losun séu inná heimasíðunni og reynt sé að uppfæra þær stöðugt.  Hlið og læsingar valda þjónustuaðilum oft erfiðleikum, og losun verður kostnaðarsamari ef ekki er hægt að komast um svæðin þegar þjónustuaðili er að losa.  Aðgengi að rotþróm er oft erfitt og þannig erfitt eða illmögulegt að losa sumar þeirra.
Birgir leggur áherslu á gott upplýsingaflæði frá sveitarfélaginu.  Hann gerir það að tillögu sinni að fundur verði haldinn næsta haust með sumarhúsafélögunum.  Þá liggi fyrir tillaga um sorphirðu skv. tillögu Stefáns o.fl.

4. Sveitarstjórnarlög: 
Fundarmenn töldu að þennan lið væri búið að afgreiða og hann var því ekki ræddur nánar.

5. Vegir í sumarhúsabyggð:
Farið var yfir reglur sveitarfélagsins vegna veghalds einkaaðila í sumarhúsabyggðum.  Þær liggja inni á heimasíðu sveitarfélagsins til kynningar.

6. Deiliskipulög:
Umræða var um hver það er sem greiðir fyrir deiliskipulagsvinnu.  Almenn eru það landeigendur sem greiða fyrir skipulagsvinnu.  Spurt var hvort sveitarfélagið gæti komið að því að auðvelda slíka vinnu þar sem skipulag er gamalt eða ekki fyrir hendi.  Upplýst var um að sveitarfélgið vildi leggja sitt af mörkum til þess að aðstoða við deiliskipulagsvinnu ef það er vilji aðila og menn óska eftir aðstoð.

Drífa óskaði eftir að fá að ganga frá fundargerðinni á og senda aðilum hana til kynningar og  staðfestingar.  Það var samþykkt.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:00

Drífa Kristjánsdóttir, fundarritari.

Til baka