Aðalfundur 7.5 2013

Að þessu sinni var fundurinn haldinn á Grand Hóteli og hófst kl. 20.00 með ávarpi formanns Magnúsar Ólafssonar ( hér eftir nefndur MÓ í þessari fundargerð), bauð hann fundarmenn velkomna og gerði það að tillögu sinni að Pétur Maack yrði fundarstjóri og Þórður Gumundsson ritari. Það var samþykkt einróma.

Pétur Maack (hér eftir nefndur PM í þessari fundargerð) tók við fundarstjórn og lýsti fundinn löglegan enda til hans boðað á lögmætan hátt. PM tók það fram í byrjun fundar að  hann óskaði eftir því að þeir sem vildu tjá sig, réttu upp hönd og kæmu síðan í pontu þannig að allir heyrðu. En fyrsta mál á dagskrá var skýrsla stjórnar sem formaður MÓ flutti. Hann sagði frá helstu málum sem unnið hefði verið í, en það væru t.d. merking allra gatna í Skyggnisskógi, ennfremur væru tilbúin tvö stór skilti sem biðu uppsetningar. Þau sýna allar götur og afstöðu þeirra í hverfinu. Þessi skilti verða sett upp mjög fljótlega. Hann kynnti vefinn sem félagið væri með, sumaruthlid.is og hvatti fólk til að skoða hann. Mikið hefði verið unnið varðandi öryggismál, sama gilti um vatnsleysi sem hrjáði marga í skóginum, ótal símtöl og heimsóknir til OR en án mikils árangurs enn sem komið væri. Þó er samkvæmt þeirra áliti óhóflega mikil notkun á köldu vatni, eða sem svaraði 1.7 tonnum á sólarhring á hvern bústað í hverfinu, allan ársins hring. Þetta er ótrúlega mikil notkun, í hverju sem hún nú liggur. Hugsanlega væri  hægt að nota vatnstank sem er í eigu Björns til að hjálpa upp á þetta en samt sem áður er notkunin mikil. Er eitthvað að, er þarna leki eða eitthvað annað, þetta verður kannað sagði MÓ.

Þessu næst las MÓ upp reikninga félagsins sem höfðu verið undirritaðir af skoðunarmönnum. Þar kom fram að tekjur tímabilsins frá 25.10.2011 til 31.12.2012 en það var fyrsta tímabil endurvakins félags og því meira en eitt ár,voru 1.930.170, gjöld voru 1.241.421 og að frádregnum vaxtagjöldum og fjármagnstekjuskatti var rekstrarafgangur tímabilsins kr. 641.321.Óráðstafað eigið fé félagsins 31.12.2012 var kr. 988.307.

Að lokinni skýrslu formanns og yfirferð reikninga var opnað fyrir fyrirspurnir. Margir tjáðu sig um vatnsleysið og mikla notkun á köldu vatni í hverfinu, og spurðu meðal annars um samanburð við önnur hverfi. Þegar hér var komið þá báðu fundarmenn um leyfi til þess að tjá sig og gera fyrirspurnir úr sætum, það væri of tímafrekt að allir kæmu í pontu. Því var borin fram dagskrártillaga um það mál og var hún samþykkt með miklum meirihluta og því heimilt að tjá sig úr sæti sínu. Allmiklar umræður urðu svo um vatnsmálin, sem virðast vera vandamál margra. Aðeins kom ein fyrirspurn varðandi reikninga, en hún var frá Hólmfríði sem var fulltrúi Árvakurs og Mbl. Hún spurði hvort stjórnin héldi að eldri ógreidd félagsgjöld myndu innheimtast, MÓ svaraði því til að hann teldi svo vera, enda væri skylda samkvæmt landslögum að vera í félaginu og greiða félagsgjöld sem væru samþykkt á aðalfundi hvers árs. Hann vonaðist til að ekki þyrfti að fara í innheimtuaðgerðir en það væri mögulegt ef á þyrfti að halda.

Fundarmenn voru nú beðnir um að samþykkja eða synja skýrslu formanns og reikninga félagsins. Báðir liðir samþykktir samhljóða.

Kosning stjórnar og varamanna  var næst á dagskrá, ásamt því að kjósa skoðunarmenn. Samkvæmt eldri lögum ætti að kjósa formann til tveggja ára,  tvo meðstjórnendur , annan til tveggja  ára og hinn til eins árs. Tvo varamenn, annan til tveggja ára og hinn til eins árs. Tvo skoðunarmenn til eins árs. Þetta væri svona samkvæmt eldri lögum sem giltu þar til ný lög hefðu verið samin og samþykkt. Fundarstjóri bar þetta undir fundarmenn sem samþykktu þetta samhljóða.

Fyrst var borin upp tillaga um formann. Magnús Ólafsson fráfarandi formaður gaf aftur kost á sér og var hann kosinn með öllum greiddum atkvæðum. Sama gilti um tvo meðstjórnendur, Þórður Guðmundsson var kosinn til tveggja ára og Edda Dungal til eins árs. Tveir varamenn gáfu kost á sér aftur og var Jóhann Ríkharðsson kosinn til tveggja ára og Hildigunnur Halldórsdóttir til eins árs. Skoðunarmenn til eins árs voru kosin þau Davíð Einarsson og Sigrún Benediktsdóttir.

Þessu næst flutti nýkjörinn formaður framkvæmdaáætlun fyrir næsta starfsár. Það lægi fyrir, sagði MÓ, að klára skiltavæðinguna. Ákveðið væri einnig að hitta oddvita Bláskógarbyggðar Drífu Kristjánsdóttur og ræða við hana um ýmiss mál, svo sem fasteignagjöld, sorphirðu, seirugjald, snjómokstur, vegaviðhald, deiliskipulag og síðast en ekki síst öryggismál, brunavarnir ofl. Þessi fundur hefði verið ákveðinn að tilstuðlan MÓ og yrði haldinn þann 23. maí í Aratungu. Fundinn sækja stjórir sumarhúsafélaga í Bláskógarbyggð. Vegamálin þyrftu að komast í betra horf, það væri nú svo að sumar götur væru ekki akfærar nema fyrir stærri  bíla, en til þess þyrfti aukatekjur. Landeigandi rukkar vegagjald en fáir sjá hvað verður um þá peninga. Þetta þarf að ræða  við landeiganda. Vatnsmálin þurfa að komast í lag sem fyrst og yrði að reyna að fá OR til að koma að því með okkur, sagði MÓ. Hann sagði einnig að það væri gaman að fá tillögur frá eigendum sumarhúsa á svæðinu, hvað þeir teldu mikilvægast að gera og koma því til stjórnar. Í þessu skyni nefndi einn fundarmanna að það væri nú t.d. að taka til, rífa upp gömul rör, hreinsa upp bjórdósir og annað drasl, og svo mættu nú heimamenn taka aðeins til í kring um bæinn og útihús, þar er af nógu að taka.

Næsta mál var ákvörðun um árgjald fyrir 2013. Stjórnin var aðeins á undan áætlum og sendi út beiðni um greiðslu á árgjöldum fyrir aðalfundinn. Ekki alvanalegt en stjórnin er áhugasöm sagði fundarstjóri og virðum við það þeim til vorkunnar. En eru fundarmenn tilbúnir að samþykkja 10.000 kr. árgjald. Samþykkt samhljóða.

Næsta mál á dagskrá voru öryggismál. MÓ sagði frá því að á síðasta fundi hafi verið sett á laggirnar nefnd til að skoða fleiri möguleika en öryggishlið, t.d. myndavélar, meta kosti þeirra og galla. Stjórnin sendi með í fundarboði niðurstöðu þeirra kannana ásamt því að þær voru kynntar á vef félagsins. Það er því alveg ljóst hver afstaða stjórnar er í þessum málum, enda samdóma álit langflestra sem við var rætt, eins og til að mynda lögreglu og önnur félög hér í nágrenninu að öryggishlið séu besti kosturinn. Þau muni þjóna okkur best, þó að segja megi að það sé sorglegt að þurfa að fara þessa leið en þjóðfélagið er bara orðið þannig að engum er hægt að treysta lengur. Stjórnin ber því fram tillögu um að keypt verði 3 hlið sem sett verði upp í Úthlíð. Hún bendum á rök þau sem voru send  með fundarboði, ásamt verðum bæði á hliðum og myndavélum.
Fundarstjóri las nú upp tillögu stjórnar.

Stjórnin gerir það að tillögu sinni að keypt verði 3 öryggishlið sem verði  staðsett sem hér segir.

  1. Á mótum Kóngsvegar og Skyggnisvegar
  2. Á mótum Kóngsvegar og Skógaráss
  3. Á Skarðavegi

Nánari staðsetning hliðanna verður ákveðin með heimamönnum.
Undir tillöguna rituðu stjórnarmenn, þau Magnús Ólafsson, Edda Dungal og Þórður Guðmundsson.

Allmiklar umræður spunnust um tillöguna, hvort hún væri löglega fram borin, hvað kostaði jarðvegsvinnan o.s.frv.. Ýmsar sögur komu fram um ágæti hliðanna, og eins nokkrar sem bentu á hina hliðina. Það var spurt um innbrotatíðni í skóginum, hvort landeigendur væru með eða á móti. Werner Rasmussen sagðist hafa talað við Ólaf Björnsson landeigenda og sagði Werner að þeir bændur væru á móti þessum hliðum. Hann benti einnig á ósmekkvísi stjórnarmanna að benda fólki á í fundarboði að þeir tækju á móti umboðum frá þeim sem ekki kæmust á fundinn, það gætu allir tekið á móti svona umboðum og las hann upp eitt þeirra. Formaður svaraði spurningum fundarmanna eftir bestu getu, bæði um rekstrakostnað ofl. Hann benti einnig á lög um frístundabyggð, þar væri getið um það að ef 1/3 félagsmanna mættu á fund og 2/3 greiddu  atkvæði með tillögum þá hefði landeigandi ekkert um það að segja.

Werner Rasmussen vildi benda stjórninni á að samkvæmt gildandi lögum frá 16. Janúar 1995. 4 grein, þá mætti ekki binda félagsmenn við hærri upphæð en sem næmi 6 lambsverðum. Fundarstjóri staðfesti að það væru þau lög sem fara yrði eftir. Werner var spurður um hvaða upphæð gilti um lambsverð í dag, hann sagðist hafa það eftir sér fróðari mönnum, nánara tiltekið frá sambandi sláturleyfishafa að það væri um 12.000 kr.  eða 72.000 fyrir 6 lambsverð. Sú upphæð er mun hærri en verið væri að leggja á félagsmenn vegna kaupa á hliðum, sagði fundarstjóri. Þar væri verið að tala um 25 - 30 þús. kr. á hvern. Þetta sýnir bara að lögin þarfnast endurskoðunar sagði fundarstjóri.

Það er því ljóst að tillaga stjórnar verður ekki borin upp nema með sérstöku leyfi fundarins, þar sem þetta séu lögin sem gilda þar til endurskoðun og samningur nýrra laga og samþykkt þeirra  tekur gildi. Við það búið bauð hann fundarmönnum að fá sér kaffisopa og hugsa málið aðeins.

Eftir kaffihlé þá tók til máls Sturlaugur sem á hús við Mosabrúnir, hann rakti raunir sínar vegna innbrota sem hefðu átt sér stað hjá þeim hjónum fyrst í Svínadal og svo aftur í Mosabrúnum. Hann taldi það ekki vera neitt ólögmætt þó svo að tillaga stjórnar um öryggishlið yrði borin fram aftur og aftur þar til hún yrði samþykkt. Hann vonaðist til að fólki bæri gæfa til að klára þetta mál. Fleiri tóku til máls og lýstu því sama, en allt að 10 % fundarmanna höfðu lent í því óláni að brotist hefði verið inn hjá þeim.

Fundarstjóri benti á  að kvöldið liði hratt og spurði fundarmenn hvort ætti að bera fram tillögu þess efnis að tillagan yrði borin upp þó svo að það væri ekki algerlega til samræmis við lög félagsins. Fundurinn gæti þó samþykkt það svo fjölmennur væri hann. Þá kom Werner með þá tillögu að ef fundurinn teldi fundinn lögmætan til ákvarðanatöku þá mætti bera tillöguna upp. Þetta var borið undir fundarmenn og samþykkt samhljóða.

Að þessu samþykktu var tillagan borin upp til atkvæða. Atkvæði féllu þannig að já sögðu 53 eða 71%, nei sögðu 21 eða 28% og auðir seðlar voru 2. Mætt var fyrir 40% sumahúsa í  Skyggnisskógi, þar með talin umboð.
Undir liðnum önnur bar ýmislegt á góma, þannig að ljóst er að æðinn starfi er fyrir höndum hjá stjórn á næsta kjörtímabíli.

Fundarstjóri sleit síðan fundi kl. 10.30
Þórður Guðmundsson ritari.

Til baka