Félagsfundur 7. mars 2012

Fundurinn var haldinn á Grand Hótel í Reykjavík og hófst kl. 20:00
Á fundinum voru hátt í 100 manns, þar af um 70 fulltrúar sumarhúsaeigenda (atkvæðisbærir).
Formaðurinn, Magnús Ólafsson, setti fundinn og skipaði Pétur Maack fundarstjóra.
Eitt efni var á dagskrá: Tilboð um uppsetningu og rekstur á þremur öryggishliðum á afleggjurum að sumarhúsalandinu í Úthlíð.

    Formaður reifaði málið. Á síðasta fundi var skipuð nefnd til að fara yfir öryggismálin  og hennar niðurstaða er að besti kosturinn sé að reisa öryggishlið. Hann kynnti síðan hagstæðasta tilboðið sem er frá Securitas. Heildarkostnaður við uppsetninguna er 5.089.902 krónur. Rekstur þeirra kostar 5000 krónur á mánuði samtals. Það er síðan í höndum félagsins að ákveða hvort hliðið sé einungis lokað að vetri til eða allt árið um kring.
    Starfsmaður Securitas lýsti síðan hliðinu og virkni þess.
    Miklar umræður spunnust að þessu loknu og voru skoðanir mjög skiptar. Helstu atriði, sem fram komu, voru:
    Ekki er fýsilegur kostur að reisa hlið í trássi við landeigendur sem eru á móti hliðum.
    GSM samband er lélegt á mörgum svæðum þannig að erfitt gæti reynst að opna hliðin því það er gert með símhringingu.
    Ekki er gott að þurfa að loka alveg austasta veginum að hverfinu því hann er snjóléttari en vegurinn upp í Rétt.
    Margir mæltu með að setja fremur upp öryggismyndavélar sem talið er að hafi mikinn fælingarmátt.
    Erfitt er að fá marga gesti og þurfa að hringja í hliðið fyrir hvern gest sem kemur.
    4. Fundarstjóri tók saman umræðuna og taldi ljóst að tvær tillögur lægju í loftinu, annars vegar öryggishlið og hins vegar öryggismyndavélar.
    5. Einn fundargesta bar fram tillögu um að fresta málinu og fela stjórninni að athuga alla valkosti er varðaði öryggismyndavélar, leita tilboða og halda síðan annan fund. Sú tillaga var felld.
    6. Borin var upp tillaga stjórnar um öryggishlið. Hún var felld með miklum meirihluta atkvæða.
    7. Þá var borin upp tillaga um að stjórnin athugaði alla valkosti í sambandi við öryggismyndavélar, ræddi við sérfræðinga á því sviði og leitaði tilboða. Ekki var í þeirri tillögu nein kvöð um fund heldur væri framkvæmdin á hendi stjórnar. Félagsmenn yrðu upplýstir um málið. Þessi tillaga var samþykkt.

Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. rúmlega 22.
Hildigunnur Halldórsdóttir

Til baka