Aðalfundur 22.2 2017

Fundurinn var settur af Magnúsi Ólafssyni formanni félagsins kl. 20.00. Hann gerði það að tillögu sinni að Sævar Gunnarsson tæki við fundarstjórn og var það samþykkt með lófataki.


Sævar þakkaði traustið, benti á dagskrá fundarins á skjám í fundarsal og gerði fundarmönnum grein fyrir því að löglega hefði verið boðað til fundarins með þriggja vikna fyrirvara með tölvupósti auk ítrekunar í vikunni, en einnig á vef félagsins og facebook síðu.

Sævar gerði það að tillögu sinni að Daði Friðriksson ritaði fundinn og var það samþykkt samhljóða.  Fundargerð verði unnin í samráði við fundarstjóra og síðan birt á heimasíðu félagins.

Næsta mál á dagskrá var skýrsla stjórnar sem Magnús Ólafsson formaður flutti.

Hann nefndi að starf félagsins hefði verið með hefðbundnum hætti.  Hreinsunardagur var haldinn óvenju seint eða seinnipart júní vegna óhagstæðs veðurs.  Þetta er árlegur viðburður en stefnt er að því að hafa hann fyrr í ár, seinnipart maí eða byrjun júní. Magnús Kristinsson og Finnbogi Guðmundsson hafa leitt það starf og væntingar eru til þess að þeir haldi uppteknum hætti. Magnús hvatti fundarmenn til að nýta sér hreinsunardaginn til að hafa nærumhverfi sitt snyrtilegt.
Engar framkvæmdir voru á árinu.  Tekjur félagsins voru nýttar til að greiða upp skuldir vegna fjárfestinga við hliðin, myndavélar og rekstur því tengt.  Hann minntist á að eitthvað hefði verið um tjón á hliðunum vegna ákeyrslu.  Tekist hefði mjög vel að byggja upp fjárhag félagsins, en Davíð muni á eftir fjalla um fjárhag félagsins og áætlun fyrir næsta starfsár.
Hliðin og myndavélarnar hafa sannaði gildi sitt.  Ekkert vesen hefur verið með búnaðinn í vetur. Myndavélarnar hafa gert stjórn mögulegt í öllum tilvikum að hafa uppi á aðilum sem eiga við hliðin eða skemma þau.  Þetta hefur leitt til þess að mögulegt hefur verið að sækja bætur til þessara aðila.  Hliðin hafa einnig reynst vel, því frá því þau voru sett upp hafa ekki verið innbrot á svæðinu svo vitað sé.
Helsta rimma stjórnar hefur verið við landeigendur vegna vegamála. Ítrekað hefur verið beðið um fundi og upplýsingar um aðgerðir vegna vega.  Illa hefur gengið að ná fundum og upplýsingar um framkvæmdir og fyrirhugaðar aðgerðir hafa ekki verið veittar.
Það sem þarf að gera í nánustu framtíð er að taka á vegamálunum. Vegir eru í ólestri og rauðamölin er óheppilegt efni til viðhalds vega. Magnús kallaði eftir samstarfi við landeigendur um vegaframkvæmdir á svæðinu og nefndi ýmsa vegakafla sem dæmi um slæmt ástand vega og mögulegar slysagildrur.
Magnús nefndi að núna væri töluverð endurnýjun í stjórninni, Davíð biðst undan stjórnasetu sökum anna, Hildigunnur hefur verið í stjórn frá upphafi, haldið utanum tölvumál, símamál vegna hliða og heimasíðu, en hverfur nú af braut. Jóhann hefur sömuleiðis verið frá upphafi.  Þeim er þakkað gott og óeigingjart starf.
Hann gerði að umfjöllunarefni umgengni um ruslagámana. Landeigendur greiða kostnað vegna ruslagáma en einhverjir eru að henda í og við gámana rusli sem ekki á heima þar.  Þeir eru einvörðungu hugsaðir fyrir heimilissorp. Losun annars úrgangs á að fara fram á Reykholti eða á Laugavatni.
Þessa þróun þarf að stoppa því líkur eru á því að landeigendur afleggi þessa þjónustu vegna bágrar umgengni.  Við þurfum að fylgja umgengnisreglum og fylgjast með að aðrir séu ekki að misnota aðstöðuna, sagði Magnús að lokum.

Fundarstjóri lagði til að umræða um skýrslu stjórnar, reikninga félagsins og áætlun færu fram samtímis.
Þessu næst fór Davíð Einarsson gjaldkeri yfir reikninga félagsins. Helstu kennitölur voru þessar. Rekstratekjur voru kr. 3.200.000, 190 aðilar greiddu kr. 16.000,- árgjald, nokkrir nýir aðilar greiddu aðgangsgjald að hliðum og einhverjar tekjur voru vegna fjarstýringa. Áætlun var rétt rúmar kr. 3.000.000,-.

Davíð fór yfir sundurliðun rekstrargjalda en rekstrargjöld voru kr. 1.547.000,-  Rekstrarafgangur var því uppá kr. 1.600.000,- fyrir fjármagnsliði.  Hagnaður ársins eftir fjármagnsliði var kr. 1.721.000,-.

Öll félagsgjöld eru greidd, ekkert útistandandi. Birgðir eru fjarstýringar sem við eigum.

Eignir samtals voru kr. 805.000,- og skammtímaskuldir námu kr. 270.000,.  Eigið fé er jákvætt uppá kr. 535.000,-.

Hann minntist á undirritun skoðunarmanns, Eddu Erlendsdóttur.

Davíð lagði fram rekstraráætlun fyrir árið 2017. Þar er gert ráð fyrir 190 félagsgjöldum x kr. 16.000,- sem gera kr. 3.040.000. Gert er ráð fyrir því að gera upp útistandandi skuldir uppá kr. 270.000,-. Útborganir nema kr. 1.565.000,- og hagnaður því rétt um kr. 1.500.000,-. Sjóðsstaða í lok árs 2017 verði því rétt um kr. 2.000.000,-

Fundarstjóri gaf orðið laust vegna umræða um skýrslu stjórnar, reikninga félagsins og áætlun. Ívar spurði um kostnaðarliði vegna viðhalds hliða þar sem tjón væru alltaf greidd af þeim sem valdi tjóni.  Davíð svaraði því til að það væri vegna tjóns sem væri óuppgert en fært sem gjöld vegna óvissu um innheimtu.

Einar Hólm spurði um fjölda bústaða og Magnús svaraði því til að þeir væru 190 og allir greiddu félagsgjald.  Einar spurði einnig hvort ekki væri hægt að hafa myndavélar einnig við ruslagámana.  Magnús nefndi að það hafi verið rætt en helst vildi stjórn komast hjá því að fjölga myndavélum.

Bryndís spurði hvaða þjónstu húseigendur séu að fá frá sveitarfélaginu og Magnús svaraði að sveitarfélagið veiti húseigendum enga þjónustu.  Hann vísaði til erfiðleika í samskiptum við sveitarfélagið.  Um 2.000 bústaðir væru í Bláskógabyggð og þeir stæðu undir 25% af tekjum sveitarfélagsins. Bústaðir í Útlíð eru um 10% af heildarfjölda bústaða. Reynt hefur verið að fá aðkomu sveitarfélagsins að vegagerð, en án árangurs.  Tekjur Bláskógabyggðar eru um kr. 250 milljónir árlega frá sumarhúsum.  Aðkoma sveitarfélagsins er engin en ætti meðal annars að vera í vegagerð, sorpmálum og brunavörnum, en það verður að athuga að aukin eldhætta fylgir þéttingu gróðurs á svæðinu.

Kjartan spurði um hvað eigi að gera þegar þær aðstæður koma upp að hliðin virki ekki.  Magnús svaraði því til að hægt sé að hringja í stjórn, en símanúmer séu á heimasíðu félagsins, en einnig er mögulegt að ná í Benedikt, sem býr á svæðinu og aðstoðar okkur með hliðin.

Elísabet spurði hvort félagið tæki einhvern þátt í snómokstri á svæðinu.  Magnús sagði landeigendur annast snjómokstur og hann hefði verið ræddur við landeigendur, líkt og vegamálin en þau samtöl hafi ekki verið árangursrík, því félagið vilji hafa beina aðkomu að þessum málum.

Gunnar kvartaði undan snjómokstri og nefndi hvort ástæða væri fyrir félagsmenn að taka sig saman um að greiða ekki þessi gjöld til að þrýsta á um svör frá landeigendum.  Magnús nefndi að stjórn væri að vinna að hagsmunum allra félagsmanna og myndi skoða hvort ástæða væri til aðgerða eins og þeirra sem Gunnar nefndi og vísaði til næstu stjórnar í því tilefni.

Umræða var um gjöld félagsmanna vegna snjómoksturs, en forsendur innheimtu landeigenda eru óþekktar og fjárhæðir sömuleiðis.

Valgerður nefndi að hún hefði góða reynslu af snjómokstri, því hún hringir alltaf í landeigendur eða í Réttina áður en hún kemur og þá er undantekningalaust búið að ryðja þegar hún kemur á staðinn.

Nefnt var og nokkur umræða var um hvort eðlilegt sé að Jóhannes Stefánsson sé með umfangsmikinn atvinnurekstur á svæðinu.  Magnús sagðist ekki vita hvort leyfi sé fengið fyrir þessum rekstri eða hvort það sé í ferli.

Umræða var almennt um allskyns atriði sem koma að sambúð fólks á svæðinu, s.s. vegna ljósmengunar, hávaða og sjálfsagt komið að því að útbúa „húsreglur“ fyrir skóginn.

Ekki urðu meiri umræður um skýrslu stjórnar, reikninga og áætlun sem voru nú bornar undir atkvæði. Samþykkt án mótatkvæða.

Næst var kosning formanns. Tillaga var um Daða Friðriksson sem formann félagsins og var hann kjörinn samhljóða.

Næst var kosning til stjórnar. Tveir aðalmenn, Helga Hilmarsdóttir og Sveinn Eyland og voru þau kjörin samhljóða.

Varamenn til eins árs. Stungið upp á Magnúsi Ólafssyni og Jóhann Sigurþórsson og voru þeir kjörnir samhljóða.

Kjör skoðunarmanna og varamanna þeirra fór þvínæst fram og var Edda Erlendsdóttir kjörin.

Samþykkt var að hafa árgjaldið óbreytt, kr. 16.000.-

Kl. 20:47 var gert hlé á fundi og fundarmenn nutu kaffiveitinga til kl. 21:00.

Fundarstjóri gaf orðið laust undir liðnum Önnur mál.

Guðmundur Leifsson bar upp þá spurningu hvort ekki væri hægt að breyta núverandi fyrirkomulagi og hafa þau opin yfir sumartímann. Hann nefndi sérstaklega vandræði vegna hliðs 2 þar sem lélegt símasamband væri oft á tíðum. Hann gerði það að tillögu sinni að kosið væri um þetta á fundinum.

Fundarstjóri nefndi hvort ekki væri réttara að tillaga væri þá sett fram skriflega fyrir næsta aðalfund.

Fundarmenn tjáðu sig um tillögu Guðmundar og voru ýmist sammála henni eða alfarið á móti. Magnús Ólafsson fór yfir aðdraganda uppsetninga á hliðum og nefndi að tillagan hafi á sínum tíma verið kynnt félagsmönnum og gengið til atkvæða á aðalfundi.

Hildigunnur nefndi í þessu sambandi að grundvöllur þess að tillaga um lokun hliðanna allt árið hafi verið niðurstöður skoðanakannanar þar sem greinilegur meirihluti félagsmanna vildi hafa hliðin lokuð allt árið.

Guðmundur beindi þvínæst fyrirspurn sinni til stjórnar til umfjöllunar fyrir næsta aðalfund.

Ívar nefndi að Guðmundur hefði kvartað undan símasambandi og hvort ekki væri hægt að laga það.  Magnús nefndi að vinna væri yfirstandandi við að reyna að bæta símasambandið en það væru dauðir punktar þarna við hliðið.

Sigrún nefndi að hún hefði fengið fjarstýringu og hún væri miklu ánægðari með það fyrirkomulag.

Einar nefndi í kjölfarið hvort allir gætu ekki fengið fjarstýringar. Magnús svarað því til að 190 bústaðir væru á svæðinu og ef tvær fjarstýringar væru á bústað þá væru þetta um 400 fjarstýringar.  Ef ein týnist, þá þarf að endurforrita allar fjarstýringar og það er afskaplega þungt í vöfum.  Fjarstýringu hefur verið stolið og í kjölfarið brotist inn í hús og í því tilfelli þurfti að endurforrita allar fjarstýringar og það væri flókið úrlausnarefni. Því er það að minni áhugi stjórnar á því að útdeila fjarstýringum.

Hafdís spurði hvort athugað hefði verið að virkja einhversskonar símaapp til að opna hliðin. Hún hefði heyrt um að einhverjir sumarbústaðir væru að nota svoleiðis lausn.  Magnús nefndi að flöskuháls við núverandi kerfi væri að hámark væri 1.000 númer.  Ábending var að ný stjórn myndi skoða þetta.

Björgvin spurði hvort einhver umræða hefði verið um umferð dróna eða flygilda í skóginum.  Magnús svaraði því til að þetta hefði ekki verið rætt sérstaklega en umræða þyrfti að koma til vegna „húsreglna“ sem félagsmenn þyrftu að setja sér um umgengni á svæðinu, ljósmengun ofl.

Gísli Geir spurði hvort engar takmarkanir væru t.d. á gróðursetningu trjáa við sumarbústaði sem byrgja útsýni annarra félagsmanna.  Magnús sagði það ekki hafa verið rætt sérstaklega en myndi falla undir „húsreglur“ þær sem rætt var um fyrr á fundinum.

Ekki voru frekari umræður undir liðnum önnur mál og fundarstjóri bauð nýkjörnum formanni að taka til máls.

Daði dró saman um umræður fundarins og þakkaði fundarmönnum það traust sem stjórninni er sýnt með góðu kjöri. Hann þakkaði fráfarandi stjórnarmeðlimum óeigingjarnt starf í þágu félagsins í mörg ár. Hann nefndi að helstu málin sem stjórnin þyrfti að fjalla um næstu árin væru: vegamálin, sorphirða, hlið og myndavélar, samskipti við sveitarfélagið en líka önnur málefni eins og „húsreglur“ skógarins.  Fráfarandi stjórn setti inn á vef félagsins umgengnisreglur um hliðin og var það mjög til bóta. Hann þakkaði fundarstjóra örugga fundarstjórn og hlakkaði til góðs samstarfs við félagmenn alla á komandi árum. Að þeim orðum sögðum sleit Daði fundi.

Fundarstjóri gat þess að ritari og fundarstjóri myndu ganga frá fundargerð í sameiningu.

Fundi slitið kl. 21:15.

Og þar með lauk aðalfundi félagsins árið 2017.
Daði Friðriksson, ritari.

Til baka