Aðalfundur 17. apríl 2018

Fundarstaður: Húsi Vigdísar Finnbogadóttur.

Fundarsetning:
Formaður félagsins Daði Friðriksson setti fundinn og gerði að tillögu sinni að Sævar verði settur fundarstjóri, sem að fundurinn samþykkti.

Settur ritari fundarins sé Sveinn Eyland, og samþykkti fundurinn það einnig.

Liður 1:
Formaður félagsins Daði Friðriksson flutti skýrslu stjórnar

Daði nefndi að aðalfundur væri haldinn í dag en ekki fyrir lok febrúar eins og kveðið er á um í lögum félagsins.  Fyrir hönd stjórnar baðst hann velvirðingar á þessu, en vegna óviðráðanlegra orsaka náðist það ekki.

Samkvæmt Daða voru þau mál sem stjórn hafði að leiðarljósi frá síðasta aðalfundi eftirfarandi:

 • Vegamálin 
 • Sorphirða
 • Brunavarnir
 • Hlið og myndavélar
 • Samskipti við sveitarfélagið
 • Húsreglur skógarins (drónar/gróður/ljósmengun/fjórhjól/vélsleðar/vélhjól...)

Mikil samskipti hafa á árinu verið um vegamálin, innheimtu veggjalda og kröfu félagsins um skýringar á gjaldtökunni og framtíðaráætlanir um vegaframkvæmdir á svæðinu.
Öll þessi samskipti hafa skilað félaginu greinargerð vegna 2017 sem er ófullnægjandi.  Enn er óvissa um framtíðaráform, en ljósi punkturinn er að framkvæmdir hófust á Miðfellsvegi sl. vetur, hvað svo sem verður....vegamálin verða því áframhaldandi verkefni stjórnar.

Lítil sem engin samskipti hafa verið við sveitarfélagið, en þjónusta Bláskógabyggðar er engin við félagsmenn.  Félaginu var boðið á samráðsfund um Úrgangsmál í Bláskógabyggð 27. Okt sl. og þátttöku í könnun, en engar fréttir eru af framtíðarsýn og markmiðum fyrir málaflokkinn.
Daði nefndi að eins og oft hefur verið fjallað um, eru sorpgámar niður við veg á vegum ferðarþjónustu Úthlíðar og þeir gámar eru einvörðungu fyrir heimilissorp.  Ótrúlegt er hinsvegar að sjá hvað félagsmönnum og gestum þeirra dettur í hug að skilja eftir við gámana í stað þess að leggja leið sína í gámastöðvar.

Mikil vinna og umstang hefur verið vegna breytinga á og innsetningu nýrra númera í hliðin.  Gagnagrunnurinn er nú þegar sprunginn og hefur stjórnin leitað leiða til að stækka hann.  Sú lausn fannst á endanum og gerum við ráð fyrir uppsetningu núna á vormánuðum og í kjölfarið að félagið yfirtaki utanumhald vegna símanúmeranna af Securitas.  Nokkurt viðhald hefur verið á hliðunum, myndavélum og búnaði því tengdu.
Stjórnin hefur aflagt dreifingu á fjarstýringum vegna vandkvæða við rekstur þeirra.
Stjórn hefur einnig þurft að fylgja eftir innheimtu á kröfum vegna tjóna á hliðum undanfarin ár.

Ekki hefur unnist færi á að vinna „húsreglur“ skógarins og verður það áframhaldandi verkefni.

Hreinsunardagurinn sem verða átti í júní var felldur niður vegna óhagstæðs veðurs, en áformað er að hafa hann núna í vor.

Daði fór yfir samantekt frétta af facebook á starfsárinu:

 • Lúsmý
 • Rafmagnsleysi
 • Heita vatnið
 • Hliðamál
 • Ljósmengun
 • Snjómokstur og færð
 • Til sölu/gefins
 • Tapað/fundið
 • Samnýting bíla/skutl með aðföng
 • Umgengni um sorpgáma
 • Frágangur á svæðinu-opnir vegbrunnar
 • Drónaflug
 • Umferð vélsleða á svæðinu
 • Vegamál-holur
 • Veður
 • Og .....góð ráð..alveg ókeypis...

Þessi vettvangur hefur sannað gildi sitt en félagið heldur einnig úti vefsíðu: sumaruthlid.is.
Þeim vinsamlegu tilmælum er þó beint til félagsmanna að facebook síðan breytist ekki í sölusíðu.

Daði sagði stjórn reyna af fremsta megni að vinna að verkefnum félagsins með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi.  Stjórnin annast einnig rekstur hliða og öryggismyndavéla, utanumhald um gagnagrunn félagsins, upplýsingamiðlun, samskipti við golfklúbb og landeigendur auk fundarstarfa.

Daði benti á að umgengni um hlið og aðrar eignir félagsins séu á ábyrgð félagsmanna og félagsmenn allir þurfa því að vera vakandi fyrir því að vernda sameiginlegar eigur okkar og sýna frumkvæði í þeirri hagsmunagæslu.

Daði bað einnig félagsmenn að taka tillit til og vanda sig við það sorp sem að sett er í gáma niður við veg þar sem að það er ferðaþjónustan í Úthlíð sem sér um að láta tæma gámana og er að gera það á sinn kostnað.

Fundarstjóri lagði til að umræða um skýrslu stjórnar, reikninga félagsins og áætlun færu fram samtímis.

Liður 2:
Helga Hilmarsdóttir gjaldkeri félagsins fór yfir rekstrar og ársreikning félagsins.
Helstu kennitölur voru þessar. Rekstratekjur voru kr. 3.400.000, 195 aðilar greiddu kr. 16.000,- árgjald og nokkrir nýir aðilar greiddu aðgangsgjald að hliðum. Áætlun var rétt rúmar kr. 3.000.000,-.
Helga fór yfir sundurliðun rekstrargjalda en rekstrargjöld voru kr. 1.270.000,-  Rekstrarafgangur var því uppá kr. 2.100.000,- fyrir fjármagnsliði.  Hagnaður ársins eftir fjármagnsliði var kr. 2.222.000,-.
Öll félagsgjöld eru greidd, ekkert útistandandi. Birgðir eru fjarstýringar sem við eigum.
Eignir samtals voru kr. 2.874.000,- og skammtímaskuldir voru engar.  Eigið fé er jákvætt uppá kr. 2.874.000,-.
Hún minntist á undirritun skoðunarmanns, Davíðs Einarssonar.

Helga lagði fram rekstraráætlun fyrir árið 2018. Þar er gert ráð fyrir 195 félagsgjöldum x kr. 16.000,- sem gera kr. 3.120.000.  Útborganir nema kr. 1.415.000,- og hagnaður því rétt um kr. 1.700.000,-. Sjóðstaða í lok árs 2018 verði því rétt um kr. 4.400.000,-

Fundarstjóri þakkaði Helgu fyrir yfirferð hennar um reikninga og áætlun. Hann gaf þvínæst orðið laust vegna umræðu um skýrslu stjórnar, reikninga félagsins og áætlun.

Spurningar komu úr sal:
Werner bar upp spurningar:
-Ef afleggja á fjarstýringar á öryggishliðin, ætlar stjórnin að skaffa símanúmer fyrir þá aðila sem eru „utan hliða“ ?
-Varðandi þetta með að sveitarfélagið sé ekki að sinna skyldum sínum gagnvart okkur, hvort að það væri ráð að fá í lið með okkur fleiri sumarhúsafélög til þess að herja á sveitarfélagið og fá svör varðandi þessa liði?

Helgi bar upp spurningu:
-Vildi fá frekari útskýringu á hvað formaðurinn meinti með því að fjarstýringar á öryggishliðin væru aflagðar?

Formaður félagsins, Daði Friðriksson svaraði spurningum Werners:
-varðandi fjarstýringar og símanúmer, þá sagði Daði það sjálfsagt að útvega aðgengi að hliðum fyrir þessa aðila.
-varðandi samstarf við önnur sumarhúsafélög þá nefndi Daði að það væri ágætis hugmynd og stjórn myndi íhuga það.

Formaður félagsins, Daði Friðriksson svaraði spurningum Helga:
-Stjórn hefur aflagt frekari dreifingu fjarstýringar á öryggishlið vegna vandkvæða við rekstur þeirra og áhættu á misnotkun. Daði og Jóhann útskýrðu báðir lausnir hvað varðar framtíðaráform með öryggishliðin.

-Werner bar upp spurningu; hvað Helga finndist mæla gegn því að nota fjarstýringar vs. símanúmer.
-Helgi útskýrði af hverju hann vildi bara nota fjarstýringar.
-Nokkur umræða skapaðist um öryggishlið og umgengni um þau með fjarstýringum og símanúmerum. Sitt sýnist hverjum um ágæti hverrar leiðar fyrir sig.

Kristófer kom með spurningu um kostnað vegna aðalfundar kr. 220 þús og lýsti yfir óánægju sinni með fundaraðstöðu þar sem að við erum í dag.

Werner kom með spurningu hvort að það væri markmið félagsins að safna í sjóð?

Formaður félagsins, Daði Friðriksson svaraði spurningum Kristófers:
Hvað varðar kostnað vegna aðalfundar, þá var fjárhagsáætlun gerð áður en boðað var til aðalfundar 2018 og er stefnt að mun lægri kostnaði vegna aðalfundar nú heldur en áætlað var.

Formaður félagsins, Daði Friðriksson svaraði spurningu Werners:
Ekki er markmið að safna í sjóði í sjálfu sér, en aldrei hefur þótt til vansa að eiga fyrir óvæntum útgjöldum s.s. vegna reksturs hliða eða vegaframkvæmda í stað þess að fjármagna þessháttar útgjöld með lántöku.

Spurning kom úr sal um hvaða eru vaxtatekjur og seðilgjöld kr. 100.000.-?
Helga svaraði því að þetta væru innheimt seðilgjöld.

Vegna góðrar fjárhagsstöðu spurði Þórður hvort ekki mætti hækka kostnað vegna hreinsunardags og hafa betri veitingar?  Helga og Daði svöruðu því til að það væri ágætis hugmynd.

Ekki urðu meiri umræður um skýrslu stjórnar, reikninga og áætlun sem voru nú bornar undir atkvæði. Samþykkt án mótatkvæða.

Fundarstjóri bar upp til samþykktar fyrir fundinn hvort árgjald ætti að haldast óbreytt kr. 16.000,- og var það samþykkt af fundinum.

Kl.19.40 var gert kaffihlé í 20 mín.
Fundur hófst aftur kl.20:00.


Fundarstjóri bar upp stjórnarkjör.
Næst var kosning formanns: Formaður var kjörinn á síðasta aðalfundi til tveggja ára og situr Daði Friðriksson því áfram.
Næst var kosning til stjórnar: Tveir aðalmenn, þau: Helga Hilmarsdóttir og Sveinn Eyland voru kjörin á síðasta aðalfundi til tveggja ára og eins árs.  Þau gefa bæði kost á sér áfram.
Varamenn til eins árs. Magnús Ólafsson og Jóhann Sigurþórsson gefa kost á sér áfram.
Kjör skoðunarmanna og varamanna þeirra fór þvínæst fram og gefur Davíð Einarsson kost á sér áfram.

Þetta var allt samþykkt af fundinum.

Önnur mál:
Fundarstjóri gat þess að stjórn félagsins hafi rætt beiðni Guðmundar Leifssonar, frá aðalfundi 2017, á fundi 31.08.17 og aftur 13.03.18.  Niðurstaða stjórnar var að hlíta niðurstöðu skoðanakönnunar sem gerð var í nóvember 2014 þar sem 57,1% þátttakenda vildu hafa hliðin lokuð allt árið.  Stjórn hefur ekki borist tillaga um sama efni frá öðrum félagsmönnum og því ekki auglýst sem dagskrárefni þessa fundar.

Pétur á Birkistíg spurði um 2 atriði;
-Hann vildi meina að það vantaði ennþá að setja upp eitt hlið til viðbótar og lagði til að stjórnin athugaði að setja upp fjarstýrt öryggishlið þar sem járnhlið með lás er til staðar í dag.
Daði gat þess að stjórn myndi skoða tillöguna.

Björgvin Andri á Miðfellsvegi 2;
Varðandi inneign í hússjóð/félagsgjöld, fylgir það eigninni eða eiganda ?
Guðmundur á Mosastíg 10, sagði að sumahús falli ekki undir fjöleignahúsalög.

Nokkur umræða var um þessa spurningu og var niðurstaðan sú að góð sjóðstaða félags ætti að gera bústaði auðseldari en sjóðurinn myndar ekki inneign félagsmanns við sölu bústaðar.

Varðandi ljósmengun hvort að það megi banna ljós á nóttu og kvöldin. Þórhildur Þorleifsdóttir ræddi um ljósmengun og tóku nokkrir til máls um þá athugasemd.

Werner vakti máls á sívaxandi gróðri í skóginum og eldhættu honum samfara.  Hann nefndi að vert væri að skoða, viðhalda og kynna flóttaleiðir um hverfið. Einnig var bent á brunahættu af gróðri sem er of nálægt sumarhúsum.

Sverrir á Skyggnisvegi 8;
Benti á að það væri grjót í hjólfari við öryggishliði 1 og hvort að hægt væri að laga það. Og eins benti hann á að í morgun hafi verið 3 Camper bílar við Réttina, hvort að fundarmenn hafi orðið varir við þetta eða vissu af þessu.
Daði hvatti félagsmenn til að leysa sjálfir úr málum sem torvelda umferð og þessháttar, sé það mögulegt, í stað þess að beina þeim til stjórnar. Umgengni um skóginn er á ábyrgð allra félagsmanna. Hvað varðar bílastæði við Réttina, þá beindi hann fyrirspurnum varðandi það til ferðaþjónustunnar.

Tryggvi Guðjónsgötu 3;
Beindi spurningu til stjórnar er snýr að hitaveitu og spurning hvort að stjórnin geti beitt sér í að fá rennslismæla í stað hemils.
Daði hefur verið í samskiptum við OR og fékk ekki góð né skýr svör.

Spurningar komu upp varðandi brunavarnir í hverfinu og hvort að hægt væri að setja upp brunahana í hverfið og eins hvar næsta slökkvistöð sé á svæðinu.
Daði nefndi að varðandi brunahana þá er þetta eitthvað sem að þarf að ræða við sveitarfélagið um.

Plast og sorpmengum kom til tals og er ekki of oft ítrekað fyrir eigendum að hugsa um sitt nærumhverfi og taka til í kringum sig. Hreinsunardagur verður með vorinu og verður hann auglýstur síðar.
Werner þakkaði stjórninni fyrir vel unnin störf og óskaði þeim til hamingju með endurkjör.
Daði þakkaði Werner fyrir.


Fundi slitið kl.20:40.
Daði Friðriksson, formaður, þakkaði fundarmönnum fyrir góðan fund og fjörugar umræður um málefni félagsins.  Hann gat þess að eins og yfirferð hans í skýrslu stjórnar bar með sér, þá eru á hverju ári kunnugleg stef í verkefnum stjórnar félagsins og verða þau það áfram.
Hann þakkaði Sævari Gunnarssyni styrka fundarstjórn og gat þess að hann hlakkaði til góðs samstarfs við stjórn og félagsmenn alla á starfsárinu.
Að þessum orðum sögðum sleit hann fundi kl. 20:40

Fundarstjóri gat þess að ritari og fundarstjóri myndu ganga frá fundargerð í sameiningu.

Til baka