Aðalfundur 24.febrúar 2022

1. Fundur settur. Val á fundarstjóra og fundarritara.
Formaður sumarhúsafélagsins Daði Friðriksson setti fundinn kl.19.10 og stakk uppá að Jóhann Gunnar Stefánsson verði fundarstjóri og var það samþykkt.

Jóhann tók við fundarstjórn og lagði til að Sveinn Eyland riti fundinn og var það samþykkt.
Engar athugasemdir voru gerðar við boðun fundarins og lýsti fundarstjóri hann lögmætan þar sem að löglega var til hans boðað með tölvupósti og upplýsingar settar fram á Facebooksíðu félagsins.
Merkt var við mætingu félagsmanna og mættu fulltrúar 16 sumarhúsa af 200 í Úthlíð.

Fundarstjóri benti félagsmönnum á að vegna sóttvarna verði ekki gert hlé á fundi vegna kaffiveitinga og fundi verði slitið að loknum venjulegum aðalfundarstörfum.  Hann gat þess að umfjöllun aðalfunarins eigi við um starfsárin 2020 og 2021 þar sem aðalfundur var ekki haldinn árið 2021.

Fundarstjóri gekk því næst til dagskrár og lagði til að umræða um skýrslu stjórnar, reikninga félagsins og áætlun fari fram samtímis og þá verði einnig kosið um reikninga, árgjald og áætlun. Fundurinn samþykkti þessa tillögu.
Fundarstjóri kynnti Daða Friðriksson til að flytja skýrslu stjórnar.

2. Skýrsla stjórnar.
Formaður flutti skýrslu stjórnar:
Daði nefndi að í skýrslu stjórnar verði stiklað á stóru í verkefnum félagsins síðustu tvö starfsárin.

Rekstur, viðhald og endurnýjun hliða og búnaði þeim tengdum hefur verið fyrirferðamikið í starfi félagsins.
Daði gat þess að hlið 2 og 3 hafi verið endurnýjuð og öll fjögur hliðin eru nú með þá virkni að ekki þarf að hringja í þau til að komast út af svæðinu.
Myndavélar hafa verið endurnýjaðar sem og búnaður þeim tengdum.  Til fjölda ára hafði miðlægur búnaður vegna fjartenginga við hlið og upptöku myndskeiða verið hýstur í sumarhúsi í skóginum en til að tryggja betur rekstraröryggi var allur búnaður og tengivirki flutt í fjarskiptamannvirki Mílu á svæðinu.
Daði sagði að án efa hafi félagsmenn orðið varir við bilanir í hliðunum sem hafi verið af ýmsum orsökum og oft tekur tíma að fá úrlausn og þjónustuaðila á svæðið.
Hugsanlegt er að farið verði í útskipti á hliðum 1 og 4 á þessu starfsári og jafnvel malbikað í kringum hliðin til að tryggja betur virkni þeirra.

Daði nefndi að frá því í febrúar 2020 hafi stjórnin átt í viðræðum við Bláskógabyggð um grenndarstöð fyrir flokkað sorp í grennd við sumarhúsabyggðir.
Settur var á laggirnar samráðsvettvangur sumarhúsasvæðanna í Úthlíð, Miðhúsaskógi, Brekkuskógi, Reykjaskógi og í Efstadal til að fjalla um sameiginleg hagsmunamál og Daði ásamt Páli Ólafssyni, fyrrverandi formanni Reykjaskógafélagsins, hafi tekið að sér að fylgja málinu eftir gagnvart sveitarfélaginu. Þeir hafi átt nokkra fundi með Helga oddvita, Ástu sveitarstjóra og sveitarstjórn um málefnið.
Daði sagði þessa vinnu hafi leitt til þess að sveitarfélagið fékk síðasta sumar styrk frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu til uppsetningar grenndarstöðva við frístundabyggðir.  Einnig er unnið að stofnun þekkingarseturs á Laugarvatni um úrgangsmál á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga.
Lítið þokast þó í uppsetningu grenndarstöðva en í nóvember kom nýr vinkill frá Sambandi sveitarfélaga.
1. janúar 2023 taka gildi lagabreytingar um hringrásarhagkerfi vegna meðhöndlunar úrgangs.  Samræma þarf milli sveitarfélaga og sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur ákveðið að halda að sér höndum þar til þessari vinnu er lokið.  Þar er meðal annars rætt um að innleiða sokallað „Borgaðu þegar þú hendir“ aðferðafræði við gjaldtöku.  Fróðlegt verður að sjá afrakstur þessarar vinnu.
Sumarhúsaeigendur þurfa hins vegar að undirbúa sig samhliða og hvatti Daði félagsmenn til koma sér upp aðstöðu til flokkunar, hver í sínu húsi..
Lítið hefur áunnist í Brunavörnum. Stjórn gerði tilraun til að koma af stað brunavarnahóp í félaginu en skemmst er frá því að segja að hugmyndin hlaut engar undirtektir frá félagsmönnum.
Stjórnin hefur rætt að koma upp slökkvibúnaði í skóginum og verður það áfram rætt og stefnt að uppsetningu á t.d. brunaklöppum við hliðin.
Hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er starfandi gróðureldahópur og sagðist Daði heyra að mikil vinna sé í gangi þar, þó sannanlega hlutirnir gangi of hægt.
Stjórnin hefur leitað tilboðs frá Verkís til að koma upp skjali sem sýni flóttaleiðir í skóginum, en Verkís hefur unnið þessháttar teikningar fyrir sumarhúsabyggð.

Síðasta sumar var lággróður í vegköntum grisjaður.  Grisjun sem þessa er nauðsynlegt að framkvæma reglulega, ekki síst til að tryggja betri brunahólfun í skóginum.

Daði nefndi að rollur í skóginum hafi hrellt félagsmenn með átroðningi á sumrin.  Þrátt fyrir það að félagsmenn og gestir passi að loka lokanlegum hliðum þá komast þær inn á svæðið eftir öðrum leiðum. Landeigendur í Úthlíð og Dalsmynni hafa ekki endurnýjað ónýta girðingu og því er fyrirséð að rolluváin verði með okkur næstu misseri.

Á þessu ári stefna sumarhúsafélög í Grímsnes- og grafningshreppi að stofnun hagsmunasamtaka.  Stjórn fylgist með framvindu þessarar vinnu sem og hvort það færi saman við hagsmuni félagsins að leggja til að útvíkka þessi hagsmunasamtök til Bláskógabyggðar.

Stjórn hefur átt samskipti við Ferðaþjónustuna í Úthlíð um möguleika á uppsetningu leiktækja við Réttina og verður þeim samskiptum haldið áfram.

Stjórn hefur rætt um leiðir til að stemma stigu við hraðakstri í skóginum og er þeirri umræðu ekki lokið en framkvæmdir fyrirhugaðar að þeim loknum.

Daði sagði umræðu um skipulagsmál hafa verið nokkra, bæði vegna tillögu að aðalskipulagsbreytingu vegna breytingar á landnotkun við Vörðuás og einnig vegna tilkomu myndarlegrar hjólhýsabyggðar á tjaldsvæði ferðaþjónustunnar.
Stjórn átti samskipti við félagsmenn, sveitarfélagið og aðra hagsmunaaðila vegna þessara mála til að reyna að tryggja að ekki væri gengið á hagsmuni félagsmanna.

Venju samkvæmt benti Daði félagsmönnum á að umgengni um hlið og aðrar eignir félagsins eru á ábyrgð félagsmanna sem þurfa að vera vakandi fyrir því að vernda eigur félagsins og sýna frumkvæði í þeirri hagsmunagæslu.
Félagsmenn hafa verið duglegir við að benda á ýmislegt sem betur mætti fara, á Facebook og annarsstaðar, en oft þurfum við sjálf að taka til hendinni og það hafa mörg okkar gert vel.
Daði þakkaði fyrir sig eftir yfirferð á skýrslu.

3. Ársreikningur 2020 og 2021 yfirfarnir, árgjald kynnt, áætlun yfirfarin, umræður og atkvæðagreiðsla.
Fundarstjóri nefndi þá nýlundu að reikningar félagsins hafi, fyrir fundinn, verið gerðir aðgengilegir félagsmönnum á vefsíðu félagsins og félagsmenn hvattir í tölvupósti og á facebook síðu félagsins að kynna sér efni þeirra fyrir fundinn.

Helga Hilmarsdóttir, gjaldkeri félagsins, fór yfir rekstrar- og ársreikning félagsins fyrir árin 2020 & 2021, og hér eru helstu tölur;
2020 – Rekstrartekjur kr. 3.200.000.- rekstrargjöld kr. 746.244.- afgangur kr. 2.902.566.-
2021 – Rekstrartekjur kr. 387.000.- rekstrargjöld kr. 4.229.859.- halli uppá  kr. - 3.817.194.-

Helga fór því næst yfir einstaka liði í rekstraráætlun fyrir árið 2022.
Hún minntist á undirritun skoðunarmanns, Davíðs Einarssonar.

Helga gerði grein fyrir tillögu stjórnar að félagsgjöld yrðu rukkuð aftur fyrir árið 2022 kr. 16.000,-. 

Fundarstjóri þakkaði Helgu fyrir yfirferð hennar um reikninga, árgjald og áætlun.

Fundarstjóri gaf því næst orðið laust vegna umræðu um skýrslu stjórnar, ársreikning félagsins, tillögu um árgjald og áætlun.

Spurningar bárust úr sal:
Jón Ólafur bar upp spurningu hvort að það lægi fyrir samþykki á aðalskipulagsbreytingu vegna lóðanna að Vörðás 5-9.
Oddur Sigurðsson spyr um rafmagnskostnað í rekstraráætlun um hlið kr. 200.000.-
Margrét kom með sömu spurningu og Jón Ólafur varðandi Vörðás 5-9.
Sigrún bar einnig upp spurning því kostnaður væri svo mikill í áætlun við rekstur hliða.
Sóley kom með spurningar varðandi hliðin og hvort að þessi segull inn við hliðin væri komin í gagnið, eins spurði hún hvort að sumarhúsafélagið gæti ekki keypt brunaklappir til þess að setja upp við hvern sumarbústað í hverfinu.

Formaður stjórnar Daði Friðriksson svaraði spurningum fundarmanna og eins kom svar frá Jóhanni Sigurþórssyni stjórnarmanni að búið væri að samþykkja þessa breytingu á lóðunum Vörðás 5-9.
Daði nefndi að rafmagnskostnaður væri raunkostnaður við tengigjöld og rekstur fjögurra hliða, myndavéla og tengds búnaðar. Hann nefndi ennfremur að kostnaður við rekstur hliða í áætlun sé hár vegna mögulegrar endurnýjunar tveggja hliða auk malbikunar við hliðin.
Varðandi brunaklappir, þá skoðar stjórn að koma upp þessháttar búnaði við öll sumarhús á svæðinu.

Að umræðum loknum bar fundarstjóri upp;
-Ársreikning 2020 og 2021 til samþykktar, sem voru samþykktir af fundarmönnum.
-Félagsgjöld fyrir árið 2022 kr. 16.000, sem var samþykkt af fundarmönnum.
-Rekstraráætlun ársins 2022, sem var samþykkt af fundarmönnum.

4. Kosning formanns og stjórnarmanna félagsins.
Fundarstjóri fór yfir kjör til stjórnar félagsins.
Kosning formanns:
Daði Friðriksson hefur óskað þess að stíga til hliðar, en Daði hefur verið formaður undanfarin fimm ár.  Tillaga liggur fyrir um Jóhann Gunnar Stefánsson sem formann stjornar til tveggja ára.
Kosning til stjórnar:
Helga Hilmarsdóttir og Sveinn Eyland gefa kost á sér til stjórnarsetu til eins árs.
Varamenn til eins árs:
Sigrún Dóra Jónsdóttir gefur ekki kost á sér til áframhaldandi stjornarsetu.  Jóhann Sigurþórsson gefur áfram kost á sér og Daði Friðriksson gefur kost á sér.
Fundarstjóri bar upp þessar tillögur til formanns stjórnar, varastjórnar sem voru samþykktar af fundinum.

5. Kosning skoðunarmanna reikninga.
Davíð Einarsson tilnefndur áfram sem skoðunarmaður reikninga félagsins.
Fundarstjóri bar tillögu upp til atkvæðagreiðslu. Sem var samþykkt af fundarmönnum.

6. Önnur mál.
Fundarstjóri gaf frafarandi formanni orðið undir þessum dagskrárlið.

Spurningar bárust úr sal:
Friðrik Sophusson kom með spurningu er snéru að „Húsreglum“ félagsins. Spurði hvort um væri að ræða drög að húsreglum eða hvort þetta væru samþykktar reglur. Og hvort eða hvernig yrði tekið á málum er fram koma í húsreglum, hvort að einhverjar úrlausnir væru á þeim málum og óskaði hann eftir því ný stjórn myndi taka á þeim málum.
Daði svaraði spurningu Friðriks um húsreglur á þá leið að þær séu á heimasíðu félagsins og að þetta væri í raun lifandi skjal og félagsmenn væru hvattir til þess að koma með tillögur að umbótum á því.  Varðandi trjágróður sérstaklega þá myndi stjórn fjalla um hvort mögulegt væri að koma upp samskiptafarvegi t.d. fyrir óskir um trjáfellingar og eða snyrtingar oþh.

Jóhannes kom með spurning er snýr að nýju hjólhýsa hverfi sem er að rísa á tjaldsvæðinu fyrir neðan Réttina og um það hve mörg hýsi munu koma til með að vera þar.
Daði svaraði því að um væri að ræða um 30 hús samkvæmt þeim upplýsingum sem að hann hefði frá Ólafi Björnssyni.

Fundarstjóri sló botn í umræðu undir þessum dagskrárlið og gat þess að ritari og fundarstjóri muni ganga frá fundargerð í sameiningu og hún verði síðan birt á vef félagsins http://www.sumaruthlid.is

7. Lokaorð og fundarslit.
Fundarstjóri bauð fráfarandi formanni félagsins, Daða Friðrikssyni að taka til máls.

Lokaorð frá fráfarandi formanni, Daða Friðrikssyni
Daði nefndi að hann hefði verið þeirrar gæfu aðnjótandi að starfa í þessari stjórn frá 2016 og hefji nú sjöunda árið.  Hann stígi nú til hliðar sem formaður en sagði góðann mann koma í sinn stað.

Hann þakkaði það traust sem honum hefur verið sýnt í störfum sínum fyrir félagið og nefndi að hann og aðrir í stjórn hafi ávallt haft hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi.
Daði þakkaði samstarfsfólki sínu í stjórn fyrir óeigingjarnt starf í þágu félagsins og frábært samstarf áranna.

Hann þakkaði Jóhanni Gunnari styrka fundarstjórn og sagðist hlakka til góðs samstarfs við stjórn og félagsmenn alla á starfsárinu.

Daði nefndi að fyrir félagið væri ákjósanlegt að sem flestir félagsmenn bjóði sig fram til starfa í þágu þess, hvort sem er í stjórn eða í vinnuhópum sem stofnað er til.  Það tryggir hraðari framgang verkefna sem félagið vill vinna áfram og fjölgar þeim verkefnum sem mögulegt er að vinna á sama tíma.
Daði lauk erindi sínu á hvatningu til félagsmanna um að vera með og taka þátt.

Fundarstjóri og nýkjörinn formaður félagsins þakkaði fundarmönnum fyrir góðan fund og umræður um málefni félagsins.  Hann þakkaði jafnframt það traust sem honum væri falið með því að kjósa hann til formennsku í félaginu. Hann þakkaði auk þess fundarmönnum fyrir það traust sem fundurinn sýni stjórninni með stjornarkjörinu. Nýkjörinn formaður þakkaði þeim sem mættu fyrir komuna og sleit því næst fundi.

Fundi slitið kl.20.00.

Til baka