Fréttir

Skemmdir á öryggishliðum

Yfir páskana urðu þrjú af fjórum öryggishliðunum í Úthlíð fyrir skemmdum. Einn sumarhúsaeigandi gaf sig fram og hafði lent í því óhappi að keyra á eitt hliðið. Skemmdirnar á hinum hliðunum eru óútskýrðar. Margt bendir til að hér sé um skemmdarverk að ræða.

Síðan bar svo við að eitt hlið var skemmt aðfaranótt laugardagsins 3. maí. Greinilegt var af ummerkjum að sláin hafði verið spennt frá og síðan beygð þar til hún brotnaði við festingu. Mjög keimlíkt fyrri atvikum.

Að fá nýja stöng kostar um 165.000 krónur, þ.e.a.s með vinnu og akstri sérfræðinga frá Securitas.  Í kjölfar þessara atvika hefur stjórnin rætt um að hugsanlega sé nauðsynlegt að koma fyrir öryggismyndavélum við hliðin til að hægt sé að finna sökudólgana. Engin ákvörðun hefur þó  verið tekin. Fólk sem býr í nágrenni við hlið er beðið um að hafa augun hjá sér ef það verður vart við grunsamlega hegðun við hliðin.

Hvort þessi skemmdarverk eru framin af  fólki sem er á leið í bústaði en hefur ekki símaaðgang eða fjarstýringu skal ósagt látið. En þessu tengt er sú staðreynd að mikið hefur verið um að Björn bóndi sé ónáðaður af fólki sem ekki kemst inn um hliðið. Í einhverjum tilvika er um að ræða fólk sem hefur verið boðið í partý í félagsbústaði, en þegar á vettvang er komið þá kemst þetta fólk ekki inn. Þá er hringt í viðkomandi sem bauð , en sá hinn sami er þá kannske bara með fjarstýringu og ókeyrsluhæfur, svo gestum er bara vísað á Björn bónda til að opna en það gengur bara alls ekki.  Í allmörgum tilvikum eru þetta líka börn sumarhúsaeigenda sem dettur allt í einu í hug að fara í bústaðinn. Þá er ekki hringt í pabba eða mömmu til að opna hliðin, hugsanlegu af ásettu ráði, heldur kássast upp á bóndann.

Það er mjög mikilvægt að fólk ónáði ekki Björn undir neinum kringumstæðum. Þessi hlið eru ekki á hans vegum og fólk verður að virða hans einkalíf og svefntíma!

Ljóst er að setja verður upp nánari leiðbeiningar við hliðin þar sem m.a. kemur fram að einungis þeir símar sem eru skráðir inn í kerfið hafi aðgang að hliðunum. Og síðast en ekki síst, munið bara einn bíll í einu, annars eigið þið það á hættu að fá slána ofaná þak bílsins.
Þessu er varpað hér fram, því að við í stjórninni þolum hreinlega ekki svona framkomu. Þetta eru okkar sameiginlegu verðmæti og þau verðum við að verja, öll sem eitt.

<< Á fyrri síðu