Aðalfundur 30.11 2011

Fundurinn sem haldinn var á Grand Hóteli hófst kl. 20.00 með því að Magnús Ólafsson formaður undirbúningsnefndar setti fundinn og gerði tillögu um að Pétur Maack yrði skipaður fundarstjóri og var það einróma samþykkt.

Fundarstjóri  sagði að til fundarins hefði verið boðað bréflega með löglegum fyrirvara og teldist því löglegur. Fundarstjóri gerði að tillögu sinni að Þórður Guðmundsson yrði fundarritari og var það samþykkt. Hann minntist á að væntanleg stjórn mundi samræma núverandi lög félagsins og þau sem voru sett af Alþingi. Þau lög næðu lengra í að vernda sumarhúsaeigendur gagnvart landeigendum og viðkomandi  sveitarfélagi heldur en þau sem nú væru í gildi.

Fyrsta mál á dagskrá var kosning stjórnar. Magnús Ólafsson var kosinn formaður, aðrir í stjórn Edda Dungal og Þórður Guðmundsson. Varamenn Jóhann Ríkharðsson og Hildigunnur Halldórsdóttir. Þau Davíð Einarsson og Sigrún Benediktsdóttir voru kosin skoðunarmenn. Öll ofangreind voru kosin til eins árs.

Næsta mál á dagskrá voru öryggismál. Magnús formaður skýrði frá því að verð lægju fyrir  í öryggishlið. Tilboða hefði verið leitað og að mati undirbúningsnefndar þá væri tilboð frá Securitas álitlegast. Kristófer Þorleifsson spurði hvar hliðin yrðu staðsett. Magnús sýndi kort af sumarhúsasvæðinu í Úthlíð og hvar hugsanleg hlið yrðu staðsett. Eitt yrði við fjósið í Úthlíð, annað í brekkunni til vinstri við Réttina og það þriðja austan við Réttina. Hann sýndi  tilboðin bæði í hliðin og myndavélar. Það komu margar fyrirspurnir úr sal varðandi hliðin. T.d. spyr Sigurþór Þorgilsson hvort leitað hefði verið að tilboðum, það hafði þá þegar komið fram, Helgi frá Fit sem eru með 4 bústaði spyr hvernig staðið verði að úthlutun lykla til félagasamtaka, Sigrírður Þórisdóttir spyr , hvað með hliðin ef rafmagnið bregst, hvað með sjúkrabíla og slökkvilið. Guðlaug á Mosavegi spyr um kostnað við viðhald. Sigríður á Kóngsvegi spyr hvort hlið séu betri en myndavélar.Fyrirspurnir bárust frá fleirum en þá um sömu mál og að framan greinir.

Magnús bað Hrafn fulltrúa frá Securitas sem staddur var á fundinum að útskýra fyrir fólki hvernig hliðin virkuðu og svara þeim spurningum sem fram höfðu komið. Gerði hann því góð skil, t.d. gætu félagasamtök gert samning við Securitas um aðstoð fyrir þeirra gesti í sumarhúsum á svæðinu, nefndi  hann upphæð sem var 4000 kr. á mánuði í því sambandi.

Næstur tók til máls Björgvin Jóhannsson. Honum fannst þetta einsleitar tillögur og sagði m.a. Hvað með ríðandi fólk? Hvað með vélsleða? Hvað með ættingja og vini. Hvaðan kemur þjónustan við hliðin . Björgvin lagði síðan fram tillögu sem hljóðaði þannig .


„Tillaga að nefnd til að leggja fram tillögur um öryggismál fyr sumarhúsabyggð í Úthlíð.  
Nefndina skal skipa 5 aðilar samkv. eftirtöldu.

Einn fulltrúi jarðarinnar, tveir fulltrúar félagsbústaða og tveir fulltrúar einstaklinga sem eiga sumarhús.
Verkefni nefndarinnar skal vera að afla upplýsinga um bestu lausnina fyrir sumahúsabyggðina í sambandi við þjófavarnir og öryggismál.

Nefndin skal afla uppl. frá sérfræðingum á þessum sviðum t.d. frá sýslumannsembættinu á Selfossi, Landssambandi sumarhúsaeigenda og frá þeim aðilum sem selja og annast eftirlitsstörf við þjófavarnir.
Nauðsylengt er að öll þessi vinna sé unnin í fullu samráði við landeigendur og að allir aðilar sem hagsmuna eiga að gæta séu ánægðir með niðurstöðuna. Vinnu  þessa skal vinna eins hratt og auðið er.

Reykjavík 30.nóv.2011
Björgvin J. Jóhannsson Mosavegi 9“

Töluverðar umræður urðu um tillöguna og sitt sýndist hverjum. Meðal annars kom fram að góð reynsla væri af svona hliðum í Skorradal, Benedikt fannst umræðan góð en spurði hvert umboð þessa fundar væri . Magnús sagðist hafa vonað að hægt yrði að afgreiða þetta núna og verðið væri ca. 25000 kr. á hvern bústað. Fundarstjóri stakk upp á því á þessum tímapunkti að það yrði teki kaffihlé og tillaga Björgvins rædd að því loknu.

Eftir kaffhlé sagði fundarstjóri að hann hefði rætt við tillöguhöfund og hann sætti sig við að tillagan yrði borin upp örlítið breytt. Ástæðan fyrir því að bera hana upp er að í fundarboði var ekki kveðið nógu sterkt að því að ræða ætti sérstaklega um öryggishlið ekki bara öryggismál og sumir fundarmenn ekki tilbúnir til að gangast undir skuldbindingar fyrr en frekari undirbúningur hefði farið fram. Því var ákveðið að leggja tillöguna fram þannig breytta, að í stað 5 aðila skyldu 6 skipa nefndina. Tveir fulltrúar félagsbústaða, einn frá landeiganda og þrír fulltrúar einstaklinga. Málinu yrði svo vísað til sjórnar og hún myndi kalla saman þá aðila sem yrðu kosnir hér á fundinum, málin skoðuð og boðað til nýs fundar eins fljótt og auðið er.Tillagan var borin upp og samþykkt.  Þessir aðilar voru kosnir í nefndina, Jóhann Ríkharðsson, Magnús Ólafsson og Þórður Guðmundsson af hálfu einstaklinga, Ólafur Björnsson af hálfu landeigenda (Var ekki á fundinum) og af hálfu félagasamtaka þeir Helgi frá Fit og Reynir frá Verkstjórafélagi Hafnarfjarðar.

Næsta mál á dagskrá var ákvörðun árgjalda. Magnús gerði það að tillögu sinni að hver lóðarhafi greiddi krónur 10.000. Fyrirspurn kom  frá einum  fundargesta um það hvort þeir sem hefðu tvær lóðir en væru bara búnir að byggja á annarri ættu að borga tvöfalt gjald. Samkvæmt lögum félagsins er það svo en málinu vísað til sjórnar til ákvörðunar. Sólon spurði hvort ekki væri rétt að gera fjáhagsáætlun áður en ákvörðun um gjald væri tekið. Það verður að bíða betri tíma þar sem kassinn er tómur og dýrt að halda til að mynda svona fund og senda út fundarboð. Tillagan var því borin upp og samþykkt einróma.

Björgvin Jóhannsson kvaddi sér hljóðs á nýjan leik og talaði um nýju lögin frá alþingi. Hann sagði þau væru mjög ákveðin varðandi t.d. vegamál og fleira. Hann þakkaði Magnúsi og undirbúningsnefndinni vel unnin störf og færði þeim þakkir fyrir framtakið.

Undir liðnum önnur mál kom fram beiðni um að sem flestir gæfu upp netfang sitt þannig að hægt væri að hafa samkipti með tölvupósti.

Fleira var ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 21.45
Þórður Guðmundsson ritari.

Til baka