Lög félagsins


Lög fyrir félag sumarhúsaeigenda í Úthlíð, Bláskógabyggð

1. gr. Nafn og heimilisfang

Félagið heitir Félag sumarhúsaeigenda í Úthlíð, Bláskógabyggð. Heimilisfang og varnarþing félagsins er í Reykjavík.

2. gr. Félagsaðild

Félagsmenn eru allir þeir sem eru handhafar leigusamnings og/eða eigendur sumarhúsalóða í Úthlíðarlandi. Selji félagsmaður land sitt og/eða sumarhús gengur hann sjálfkrafa úr félaginu svo framarlega sem hann er skuldlaus við það.

3. gr. Árgjald

Aðalfundur félagsins ákveður árgjald félagsmanna.

4. gr. Hlutverk

Hlutverk félagsins er að gæta hagsmuna félagsmanna vegna eigna þeirra eða leigulanda, rekstur á öryggishliðum og að setja almennar samskipta- og umgengnisreglur innan svæðisins.

5. gr. Aðalfundur

Aðalfund skal halda fyrir lok febrúar ár hvert. Boða má til aðalfundar félagsins með rafpósti. Stjórn félagsins og ritari annast  skrá sem heldur utan um netföng félagsmanna á hverjum tíma. Félagsmenn sjálfir eru ábyrgir fyrir því að rétt netfang sé skráð á þeirri skrá.   Boða skal til aðalfundar með a.m.k tveggja vikna fyrirvara. Félagsmenn staðfesta rafrænt fundarboð með því að staðfesta móttöku á rafpósti. Sé rafpósti ekki svarað af hálfu félagsmanns telst fundarboð samt sem áður fullnægjandi.
Á aðalfundi skulu a.m.k. vera eftirtalin mál á dagskrá:

 1.  skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins og umræður um hana,
 2. endurskoðaðir reikningar lagðir fram til samþykktar og umræður um þá,
 3. 3. lagabreytingar, ef fyrir liggja,
 4. kosning formanns,
 5. kosning annarra stjórnarmanna,
 6. kosning varamanna,
 7. kosning skoðunarmanna reikninga og varamanna þeirra,
 8. framlagning rekstrar- og framkvæmdaáætlunar fyrir næsta ár,
 9. ákvörðun um árgjald til félagsins,
 10. mál sem tiltekin eru í fundarboði,
 11. önnur mál.

Rétt til fundarsetu hafa félagsmenn, makar þeirra og sambúðaraðilar. Sambúðaraðili í skilningi laga þessara er einstaklingur sem er í skráðri sambúð með leigutaka eða umráðamanni lóðar undir frístundahús, í frístundabyggð.

Afl atkvæða ræður á fundinum, þó þarf 2/3 atkvæða atkvæðisbærra fundarmanna til að lagabreytingar nái fram að ganga. Ef tillaga liggur fyrir aðalfundi um hvort ráðast eigi í framkvæmdir eða stofna til kostnaðar sem leiða til útgjalda sem eru umfram venjulegan rekstrarkostnað félagsins þarf sú tillaga að hljóta samþykkt minnst 2/3 hluta greiddra atkvæða og minnst þriðjungur félagsmanna þarf að sækja fundinn. Eitt atkvæði fylgir hverri lóð undir frístundahús og fer umráðamaður lóðar með atkvæðisrétt. Félagsmaður má veita lögráða manni umboð til að mæta á fundi og greiða atkvæði fyrir sína hönd. Umboðsmaður skal leggja fram skriflegt og dagsett umboð á aðalfundi.

6. gr. Félagsstjórn

Aðalfundur kýs úr hópi félagsmanna og maka þeirra til að sitja í stjórn, formann til 2ja ára í senn og einn meðstjórnanda til 2ja ára í fyrsta sinn og einn meðstjórnanda til eins árs, síðan til 2ja ára, þannig að úr stjórn gangi aldrei allir stjórnarmenn í einu Að auki kýs aðalfundur tvo varamenn til eins árs í stjórn ár hvert, einn endurskoðanda og annan til vara til eins árs í senn. Stjórnin velur sér gjaldkera og ritara. Stjórnin fer með æðsta vald í málefnum félagsins milli aðalfunda og framkvæmir samþykktir þess. Stjórninni er ekki heimilt að leggja í nýjar framkvæmdir nema fyrir liggi samþykki aðalfundar. Stjórn getur boðað til félagsfunda eins oft og þurfa þykir. Til funda skal boða bréflega með tveggja vikna fyrirvara.
Stjórnin telst ályktunarhæf ef þrír eða fleiri stjórnarmenn sitja fund. Einfaldur meirihluti ræður á fundum stjórnar. Formaður stjórnar boðar til fundar svo oft sem honum þykir þurfa eða þegar aðrir stjórnarmenn óska þess. Óheimilt er að greiða félagsmönnum sem sitja í stjórn og nefndum félagsins laun eða aðrar þóknanir fyrir störf í þágu þess.

7. gr. Lagabreytingar

Stjórn er skylt að tilkynna ef um lagabreytingar verður á aðalfundi með því að senda þær með fundarboði. Tillögur að lagabreytingum skulu að berast stjórn 5 dögum fyrir boðaðan aðalfund.

8. gr. Fundargerðir

Fundargerðarbók skal haldin um það sem gerist á stjórnarfundum og einnig um það sem gerist á félagsfundum. Á félagsfundi skal fundargerð síðasta félagsfundar lesin upp. Fundargerð skal undirrituð af formanni og ritara. Fundargerðir eru síðan sönnun þess sem fram hefur farið á fundum. Fundargerð aðalfundar skal birt á vef félagsins  og lesin í upphafi næsta aðalfundar og borin upp til samþykktar.

 

Þannig breytt á aðalfundi félagsins hinn 17 febrúar 2016.